Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir lífið hafa breyst eftir ADHD greiningu eftir að hún hún byrjaði á lyfjum.

Hún segir mikla fordóma gagnvart lyfjagjöf en líkt og ADHD Samtökin hafa margoft bent á sýna rannsóknir að meðferð með örvandi lyfjum leiði ekki til fíknar. Í raun virðast börn og ungmenni, sem hafa fengið meðferð með örvandi lyfjum, síður líkleg til að leiðast til misnotkunar vímuefna en önnur börn með ADHD.

Alda, eins og hún er jafnan kölluð, segir lyfin hafa breytt miklu í hennar lífi. „Þessi lyf fara illa í fólk sem er ekki með ADHD en eru mjög róandi fyrir okkur. Ég náði að sofna betur eftir ég fór á lyfin því þá róaðist ofhugsandi heilinn minn,“ segir hún.

„Ef það eru einstaklingar að misnota þetta er þá ekki betra að þau fái öruggari lyf heldur en einhverja stórhættulega blöndu frá einhverjum fúskara út í bæ?“

Miklar umræður skapast um lyfjanotkun eftir að kona var svipt tímabundið ökuréttindum sínum fyrir að keyra „undir áhrifum ADHD lyfja“ sem hún hafði fengið löglega uppáskrifuð af lækni sínum eftir greiningu.

Alda segir þetta dæmi um rótgróna fordóma bæði gegn ADHD og fíkniefnaneytendum í kerfinu. Staðan hefur ekki batnað, þvert á móti eru lögin strangari.

„Einu sinni var hægt að sækja þriggja mánaða skammt í einu en núna er bara hægt að leysa út lyf nákvæmlega þrjátíu dögum eftir fyrsta skammt. Þetta á að koma í veg fyrir sölu á svörtum markaði en hlutfall þeirra sem misnotar ADHD lyf er í heildarmyndinni mjög lágt,“ segir Alda.

Segir hún hallast að skaðaminnkunar úrræðum. „Ef það eru einstaklingar að misnota þetta er þá ekki betra að þau fái öruggari lyf heldur en einhverja stórhættulega blöndu frá einhverjum fúskara út í bæ?“