Karlmaður hlaut í síðustu viku þrjátíu daga fangelsisdóm, skilorðsbundin til tveggja ára, í Héraðsdómi Reykjaness fyrir að ráðast á konu í verslun á bensínstöð í október 2021.

Manninum var gefið að sök að hafa slegið í hendur konunnar þannig að farsími hennar kastaðist í gólfið og í kjölfarið gripið um háls konunnar og ýtt henni kröftuglega í gólfið. Fyrir vikið hlaut konan þriggja sentímetra sár á hné og eymsli á höfði og hálsi.

Skráma á bíl orsök málsins

Fyrir dómi sagðist konan, sem var starfsmaður verslunarinnar, hafa tekið eftir skrámu á bíl sínum sem var lagt fyrir utan bensínstöðina. Hún hafi spurt konu sem var ökumaður bíls sem var skammt frá hvort hún hefði bakkað á bíl og hún svarað neitandi. Hún hafi þó tilkynnt konunni að hún myndi taka mynd af númeri bílsins og skoða öryggismyndavélar verslunarinnar til að ganga úr skugga um hver hafði valdið tjóninu.

Nokkru síðar hafi maður, sem reyndist vera kærasti konunnar á bílnum, komið inn í verslunina og öskrað á sig. Hún hafi tekið upp símann og byrjað að taka upp myndband af samskiptum þeirra og þá hafi maðurinn framið þau brot sem honum eru gefin að sök.

Í framhaldinu hafi konan hlaupið að útidyrahurð verslunarinnar og læst henni, en þrátt fyrir það hafi maðurinn náð að koma sér út og yfirgefið svæðið á bifreið.

„Oh, you are gonna take a ...“

Rúmlega tveggja mínútna myndbandsupptaka úr síma konunnar var á meðal gagna málsins, en í henni heyrast orðaskipti mannsins og konunnar. „[H]ún er að ásaka kærustuna mína um að hafa keyrt á bílinn sinn, það eru myndavélar á hótelinu beint yfir á þetta bílastæði,“ heyrist hann segja í myndbandinu.

Þá sést maðurinn snúa sér að konunni, sem er enskumælandi, og segir „sir“ og í kjölfarið segir hann: „oh, you are gonna take a ...“ og slær til hennar. Fram kemur að greina megi af upptökunni  að  síminn  falli  á gólfið. Þá heyrist konan kalla ítrekað til annars einstaklings: „call the police“ og „hringja á lögguna“.

Meðal annara gagna málsins er myndefni úr öryggismyndavél en í því virðist konan ýta við manninum og síðan sést hann grípa um hana, á meðan hún snýr honum baki, og í kjölfarið fellur hún í gólfið. Þá sést vitni ganga á milli þeirra, og halda manninum áður en hann rífur sig lausan.

Kom að kærustu sinni grátandi og ákvað að fara á vettvang

Maðurinn, sem neitaði sök, sagði fyrir dómi að hann hefði komið heim úr vinnu umrætt kvöld og komið að kærustu sinni grátandi. Hún hafi sagt honum að um morguninn hefði „einhver afrísk kona“ í „hálfgerðri maníu“ sakað hana um að klessa á bílinn sinn. Hann hafi því ákveðið að fara sjálfur á vettvang.

Hann segir að markmið sitt hafi ekki verið að „meiða  neinn  eða  gera  neitt“, heldur hafi hann viljað að ræða við konuna. Maðurinn segist hafa gengið ákveðið að konunni, sem var við störf, og spurt hana út í málið. Hún hafi gengið á móti sér með síma á lofti og hann segist þá hafa „rétt dunkað við honum“ og síminn dottið í gólfið við það. Síðan segir hann konuna hafa læst nöglum sínum í bringu sína og hann brugðist við með því að ýta henni frá sér.

Þá segist maðurinn hafa áttað sig á því að hann hefði ekki lengur stjórn á aðstæðum og komið sér í burtu. Ástandið hefði „sprungið upp“.

Passi ekki að hann hafi „rétt dunkað“ við símanum

Í dómnum segir að ekki komi heim og saman að maðurinn hafi slegið laust í símann, eða  „rétt dunkað við honum“. Myndbandsupptökur bendi til þess að hann hafi reitt til höggs af fullum ákafa í átt að brotaþola. Þá þótti lýsing konunnar á atvikum málsins passa betur við aðrar myndbandsupptökur heldur en lýsingar mannsins.

Þá þótti dómnum framkoma mannsins ógnandi og frekleg, þar sem hann kom inn á vinnustað konunnar á meðan hún var við störf.

Líkt og áður segir hlaut maðurinn þrjátíu daga skilorðsbundin fangelsisdóm, og þarf jafnframt að greiða konunni hundrað þúsund krónur.