Vangaveltur hafa lengi verið um hvort hinn sameiginlegi sportbíll Toyota og Subaru, GT86/BRZ verði í framleiðslu mikið lengur vegna ónógrar sölu bílanna. Toyota og Subaru hefur þó nýverið tekið af allan vafa um slíkt því til stendur að kynna nýja kynslóð bílsins árið 2021. Flestir hafa verið sammála um það að bíllinn sé góður til síns brúks og frábær akstursbíll, en skorti tilfinnanlega afl. Við því ætla Toyota og Subaru að bregðast og skipta út 2,0 lítra og 200 hestafla vélinni fyrir 2,4 lítra forþjöppudrifinni vél sem skila á 260 hestöflum og 376 Nm togi. 

Líklega mun ný kynslóð bílsins fá nýjan undirvagn og fyrirtækin tvö hafa lofað að þyngdarpunktur bílsins muni enn færast neðar og gera með því bílinn enn aksturshæfari. Bíllinn verður áfram framleiddur í Gunma verksmiðju Subaru í Japan. Nýr GT86/BRZ mun fá hið magnaða öryggiskerfi Subaru, Eyesight sem fyrst sást í Outback en er nú að koma í fleiri og fleiri bílgerðum Subaru. Toyota GT86/Subaru BRZ kom fyrst á markað árið 2012 og því verður þessi fyrsta kynslóð bílsins orðin 9 ára þegar sú nýja kemur fram árið 2021.