„Já, það er söknuður að missa af þorra­blóti vegna Co­vid, þetta verður annað árið í röð sem ég næ ekki að byrla blóts­gestum kæst egg,“ segir Ólafur Þröstur Stefáns­son, íbúi í Mý­vatns­sveit.

Ólafur er í hópi nokkurra heima­manna sem setja andar­egg, tínd í varp­hólmum á Mý­vatni, í ösku á sumrin. Bíða eggin svo og úldna uns hægt er að borða þau á þorra. Sum verða hnoss­gæti að sögn Ólafs, en önnur síðri.

Eggin þurfa að vera „stropuð“, þannig að rauða og hvíta hafi runnið saman, undan­fari ungunar. Með geymslunni verður gerjun eða kæsing, ekki ó­svipað verkun á há­karli. Oft verða eggin bragð­mikil eins og ramm­sterkur ostur. Matar­hefðin lagðist að sögn Ólafs af um skeið, en nú hefur þessi matur komist í tísku.

„Ég tek 100-200 egg og kæsi þau á ári, býð þau sem snakk þegar menn hittast. Það er gaman að ganga með egg á milli borða á þorra­blóti og gefa fólki að smakka, en við verðum að bíða enn eitt ár eftir hóp­neyslunni.“

Sumir kjamsa á eggjunum og skola þeim glaðir niður með sterkum drykk, að sögn Ólafs. „Aðrir ulla og gretta sig. Þetta er alltaf á­kveðið ó­vissu­ævin­týri, það eru engin tvö egg eins á bragðið, en al­gjört ævin­týri að deila góðu eggjunum.“

Ólafur segir eggja­töku í Mý­vatns­sveit hafa verið gríðar­lega á árum áður, jafn­vel fleiri þúsund egg tekin á hverri jörð fyrir sig. „Það munaði heldur betur um þessa bú­bót og skipti máli að geta geymt þau sem lengst en nú kæsa menn egg sér til gamans og menningar­auka.“.