„Já, það er söknuður að missa af þorrablóti vegna Covid, þetta verður annað árið í röð sem ég næ ekki að byrla blótsgestum kæst egg,“ segir Ólafur Þröstur Stefánsson, íbúi í Mývatnssveit.
Ólafur er í hópi nokkurra heimamanna sem setja andaregg, tínd í varphólmum á Mývatni, í ösku á sumrin. Bíða eggin svo og úldna uns hægt er að borða þau á þorra. Sum verða hnossgæti að sögn Ólafs, en önnur síðri.
Eggin þurfa að vera „stropuð“, þannig að rauða og hvíta hafi runnið saman, undanfari ungunar. Með geymslunni verður gerjun eða kæsing, ekki ósvipað verkun á hákarli. Oft verða eggin bragðmikil eins og rammsterkur ostur. Matarhefðin lagðist að sögn Ólafs af um skeið, en nú hefur þessi matur komist í tísku.
„Ég tek 100-200 egg og kæsi þau á ári, býð þau sem snakk þegar menn hittast. Það er gaman að ganga með egg á milli borða á þorrablóti og gefa fólki að smakka, en við verðum að bíða enn eitt ár eftir hópneyslunni.“
Sumir kjamsa á eggjunum og skola þeim glaðir niður með sterkum drykk, að sögn Ólafs. „Aðrir ulla og gretta sig. Þetta er alltaf ákveðið óvissuævintýri, það eru engin tvö egg eins á bragðið, en algjört ævintýri að deila góðu eggjunum.“
Ólafur segir eggjatöku í Mývatnssveit hafa verið gríðarlega á árum áður, jafnvel fleiri þúsund egg tekin á hverri jörð fyrir sig. „Það munaði heldur betur um þessa búbót og skipti máli að geta geymt þau sem lengst en nú kæsa menn egg sér til gamans og menningarauka.“.