Björgunarsveitin Stefán í Mývatnssveit sótti auglýsingaskiltið sem íslenska ferðaþjónustan skaut upp í geim í gær. Með aðstoð veðurloftbelgs sveif auglýsingaskiltið um heiðhvolfið með skilaboðin „Ice­land. Better Than Space.“

Skiltinu var skotið á loft skammt frá Kleifarvatni, fór upp í 35 þúsund metra hæð og sveif austur. Tveimur tímum síðar lenti það við Mývatn.

Fjöldi fólks er á biðlista fyrir geimferðalög með fyrirtækjum sem sérhæfa sig í slíkri ferðaþjónustu.

„Við höfum séð auknar vinsældir geimferðalaga undanfarin tvö ár, og sumir telja jafnvel að þetta sé framtíðaráfangastaður hinna ofur-ríku. Við viljum setja þessa tískubylgju í samhengi og benda á að það er hægt upplifa ójarðneska fegurð hér á Íslandi og margt annað sem er einstakt í heiminum,“ segir Sigríður Dögg Guðmundsdóttir, fagstjóri ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu.