Undanfarið hefur undirskriftarlisti gengið um Mývatnssveit þar sem sveitungar hafa skrifað undir áskorun um að Samkaup endurskoði ákvörðun sína að breyta Kjörbúðinni í Krambúð. Um 300 manns skrifuðu undir og afhenti Edda Stefánsdóttir, sem stóð að undirskriftarlistanum, Ómari Valdimarssyni, fostjóra Samkaupa listann.

Ólga hefur verið í Mývatnssveit og stéttafélagið Framsýn gagnrýndi gjörning Samkaupa harðlega á fundi sínum í júní.

"Þessi vinnubrögð eru forkastanleg í alla staði. Hafi það farið fram hjá forsvarsmönnum Samkaupa hefur þjóðfélagið verið lamað undanfarna mánuði vegna Covid 19 veirunnar,"sagði í ályktun Framsýnar.

Í bréfi sem gekk um sveitafélagið voru tekin dæmi um vöruverð sem hefur hækkað frá nafnabreytingu. Mjólk hefur hækkað um 17,7 prósent. Vanilluskyr um 16 prósent, heimilisbrauð um 15 prósent og fyrir utan verðhækkanir hefur vöruúrval minnkað. Þá hefur borið á vöruskorti á mjólkurvöru og brauði. Hafa flestir íbúar sveitafélagsins keyrt til Húsavíkur um 54 kílómetra leið eða til Akureyrar í mótmælaskyni.

Covid faraldurinn hefur komið mjög illa við Mývetninga og er atvinnuleysi mikið meðal 500 íbúa Skútustaðahrepps. Sagði Þorsteinn Gunnarsson, þáverandi sveitastjóri og núverandi borgarritari Reykjavíkurborgar, að hækkanirnar væru blaut tuska í andlit Mývetninga.

"Við erum ekki peð á taflborði sem hægt er að skáka með til og frá eftir hentistefnu. Það var mjög góð þátttaka, allir þakklátir fyrir átakið og í raun æstir að skrifa undir. Það var allavega enginn neikvæður," segir Edda. Hún segir að vel hafi gengið að safna undirskriftum. Meira að segja hlupu þau upp á bónda sem var að snúa heyji á dráttarvél til að fá undirskrift.