„COVID var högg og það er svolítið þungt hérna núna en við erum að blása í jákvæða lúðra með því að fara í metnaðarfulla viðspyrnu og ítarlega fjárfestingaáætlun. Við höfum trú á að við séum að glíma við tímabundið vandamál sem við munum rífa okkur út úr og verðum sterkari þegar því lýkur,“ segir Helgi Héðinsson, oddviti Skútustaðahrepps í Mývatnssveit, en hreppurinn kynnti nýja fjárfestingaáætlun á fundi sveitarstjórnarinnar í síðustu viku.

Þar kemur fram að samstillt átak einkaaðila, sveitarfélagsins og ríkisins þurfi að koma til svo að takast megi að snúa ofan af miklu atvinnuleysi og byggja upp innviði. Sveitarfélagið hafi þegar ráðist í lántöku í kjölfar faraldursins og muni þurfa taka frekari lán til að hægt verði að hrinda fjárfestingaáætluninni í framkvæmd.

Helgi Héðinsson, oddviti Skútustaðahrepps í Mývatnssveit. Mynd/Kristinn Ingvarsson

Alls gerir sveitarfélagið ráð fyrir að fjárfesta fyrir um hálfan milljarð, þar af fara 330 milljónir í göngu- og hjólreiðastíg frá Dimmuborgum og alla leið að Skútustöðum í samstarfi við Vegagerðina. Nú þegar er búið að taka hluta af téðum göngustíg í notkun sem nær frá Vogum og að Dimmuborgum en klárað verður að gera stíg frá Reykjahlíðarþorpi að Vogum næsta vor.

„Stefnan er að búa til heild frá Reykjahlíð og að Skútustöðum með tengingu við helstu náttúruperlur á leiðinni, svo sem Hverfjall, Dimmuborgir og Höfða. Þegar fram í sækir er hugmyndin að fara svo allan hringinn.“

Fari Mývetningar hringinn í kringum vatnið með stíginn er hann nánast maraþonlengd sem yrði einhver fallegasta maraþonleið í heimi. „En það er stórt, flókið og dýrt verkefni þannig að við erum að gera þetta í áföngum í góðu samstarfi við Vegagerðina,“ bætir hann við.

Faraldurinn hefur farið töluvert illa með hreppinn enda byggir atvinnulífið þar að stórum hluta á ferðaþjónustu. Samkvæmt tölum Hagstofunnar hefur orðið þriðja mesta fólksfækkun í hreppnum síðan faraldurinn byrjaði og segir Helgi það miður að hafa misst gott fólk úr sveitinni. En það þýði ekkert að leggjast í kör heldur verði að horfa fram á veginn.

„Hugmyndin er að nýta slakann og fara í uppbyggingu rétt á meðan,“ segir oddvitinn og bætir við: „Stefnan er að snúa vörn í sókn. Við lítum svo á að ástandið sé tímabundið og þó það sé slæmt og hafi komið hart við hreppinn þá ætlum við ekki að fara í vörn. Þetta eru metnaðarfullar viðspyrnuaðgerðir og það skín í gegn að við erum að stíga á bensíngjöfina.“