Veðrið víða um land hefur ekki verið upp á marga fiska undan­farið þar sem lítið hefur sést til sólu og hita­tölur ekkert sér­stakar. Á meðan flestir lands­hlutar hafa það þó til­tölu­lega gott er staðan önnur í Mý­vatns­sveit en sveitin er nú þakin snjó.

Söngvarinn og Mý­vetningurinn Stefán Jakobs­son segir í sam­tali við Frétta­blaðið að snjór sé nú að finna í öllum fjöllum og hlíðum í sveitinni. „Það er snjóföl yfir öllu og frekar vetrarlegt um að lítast,“ segir Stefán sem er nú í sveitinni.

Fengu smjörþefinn af sumrinu í lok apríl

Að­spurður um hvort sumarið hafi ein­fald­lega neitað að koma segir Stefán að þau hafi fengið smjör­þefinn af því í lok apríl. Maí hafi síðan verið hund­leiðin­legur þar sem það var ein­fald­lega kalt og ekkert annað.

Stefán er búsettur í Mývatnssveit.
Mynd/Stefán Jakobsson

„Svo kom júní og það var alveg fínt þarna í byrjun, það voru nokkrir fínir dagar. Það kom þarna sumar í nokkra daga og svo fór það,“ segir Stefán. „Þegar það er sumar þá vill maður bara að það sé sumar, ég er rosa lítið til í að venjast þessu,“ segir Stefán og hlær.

Hann segir það ekki ó­þekkt að snjó­koma sé í sveitinni í júní og minnist þess þegar hann var veður­tepptur á Akur­eyri í júní 2001. „Þannig að þetta gerist alveg,“ segir Stefán en segir það þó ekki venjast.

Snjór þekur nú sveitina.
Mynd/Stefán Jakobsson

Takið þið þessu samt ekki bara eins og öllu öðru?

„Þetta er veðrið. Það er ekki hægt að láta það mikið fara í taugarnar á sér því að maður stjórnar því ekki, það er bara eins og það er.“

Stefán sýndi einnig frá stöðunni á Instagram síðu sinni. Þar samdi hann nýjan texta yfir mánuðina, í ljósi stöðunnar, og má finna myndband af því hér fyrir neðan.

Hitinn í Mývatnssveit hefur verið í kringum frostmark í allan dag.
Mynd/Veður.is