Samfélagsmiðillinn Myspace hefur tapað öllum gögnum sem var hlaðið inn á vefinn fyrir árið 2016 vegna bilunar sem kom upp við gagnafærslu á milli vefþjóna, að því er fram kemur á vef Guardian. Miðillinn hefur því tapað milljónum laga, mynda og myndbanda sem hvergi var að finna annarsstaðar og ljóst að mistekist hefur að varðveita.

Að því er fram kemur í umfjöllun Guardian átti bilunin sér stað fyrir ári síðan en það hefur nú fengist staðfest að gögnunum verður ekki bjargað. Fyrirtækið hafði upprunalega fullyrt að um tímabundna bilun væri að ræða en annað kom á daginn. Rúmlega 50 milljón lög frá 14 milljón höfundum hafa því glatast, meðal annars lög sem mótuðu hina svokölluðu „Myspace kynslóð“ frá listamönnum líkt og Lily Allen, Arctic Monkeys og Yeasayer.

Vefurinn, sem missti flesta fylgjendur sína yfir til nýrri samfélagsmiðla líkt og Facebook og Twitter hélt þó eftir töluverðum notendafjölda í lok fyrsta áratugarins. Enduropnun vefsins árið 2013, þar sem flestum textafærslum á milli eldri notenda var eytt og viðmóti breytt, dró þó dilk á eftir sér og olli því að flestar hljómsveitir urðu að endurræsa Myspace síður sínar. Tónlist og myndir héldust þó inni á vefnum þar til að umrædd bilun átti sér stað.

Margir hafa þó velt fyrir sér hvort að um raunverulega bilun sé að ræða og hvort hugsanlega sé um einhverskonar yfirvarp að ræða. „Ég efa það stórlega að um slys hafi verið að ræða,“ segir netsérfræðingurinn Andy Baio. „Ótrúleg vanhæfni er kannski slæmt fyrir ímyndina en hljómar samt mun betur en „Við hreinlega nennum ekki að hafa fyrir því að færa til og hýsa 50 milljón mp3 skrár.“