81 árs gamall maður var handtekinn í Japan á fimmtudaginn fyrir að hrinda konu sinni sem notaðist við hjólastól út í sjóinn með þeim afleiðingum að hún lést.

Þetta kemur fram á fréttavef Jerusalem Post en maðurinn sem ber nafnið Hiroshi Fujiwara sagðist hafa verið „þreyttur“ á að sjá um konu sína en þau höfðu verið gift í meira en 40 ár.

Fujiwara keyrði heim til elsta sonar síns eftir verknaðinn og játaði brot sitt fyrir syni sínum. Sonur hans hafði þá samband við lögreglu sem kom stuttu síðar og handtók Fujiwara.

Veiðimaður fann lík konunnar stuttu eftir að Fujiwara hafði verið handtekinn.

Meðalaldur í Japan er 48,6 ár sem er einn sá hæsti í heiminum.
Mynd/Getty

Misnotkun aldraðra í Japan algengt vandamál

Mikil aukning hefur orðið í misnotkun á öldruðum af hendi aðstandenda í Japan á síðustu árum en landið er með einn hæsta meðalaldur í heiminum. 17,281 tilfelli var tilkynnt frá 2020 til 2021 en það er 2,1 prósent aukning frá því árið áður.

Miklar áhyggjur eru meðal stjórnvalda um hækkandi meðalaldur í landinu þar sem hækkandi meðal aldur leiðir yfirleitt til minni hagvaxtar.