Samfélag Íslensk mynt sem kínverski ferðamaðurinn Wei Li flutti til landsins á dögunum reyndist vera ófölsuð. Þetta staðfestir Seðlabanki Íslands í skriflegu svari til Fréttablaðsins. Hluti af myntinni var sendur út til Royal Mint í Bretlandi til rannsóknar á dögunum en fyrirtækið sér um framleiðslu mynta fyrir Seðlabanka Íslands.

Ferðalag Wei Li til landsins með um 170 kílógrömm af íslenskri mynt vakti mikla athygli þegar Fréttablaðið greindi frá því í byrjun febrúar. Li sagði verðmæti myntarinnar vera um 1,6 milljónir króna en myntin var í afar misjöfnu ástandi og í sumum tilvikum mikið skemmd. „Ég fæ myntina frá myntbraskara úti í Kína. Ég veit ekki hvaðan allt kemur en hluti kemur frá endurvinnslufyrirtæki sem kaupir samanpressaða bíla frá Íslandi. Þar leynist mikið af mynt,“ sagði Li í viðtali við Fréttablaðið á sínum tíma.

Fyrirkomulagið var þannig að hann borgaði ekki krónu fyrir myntina nema ef honum tækist að skipta henni hérlendis. Þá fengi myntbraskarinn sanngjarnan hlut. Fullyrti Li að hann hefði farið tvær slíkar ferðir áður til landsins og náð að skipta nokkrum milljónum króna í erlendan gjaldeyri.

Næstu daga greindi Fréttablaðið frá tilraunum hins útsjónarsama ferðamanns til þess að fá myntinni skipt í íslenskum bönkum. Náði hann að sturta andvirði 360 þúsund króna af mynt í talningarvél í útibúi Arion banka við Smáratorg og fékk kvittanir fyrir inneign sinni útprentaðar. Þegar starfsmenn bankans freistuðu þess að skila myntinni til Wei Li neitaði hann því alfarið og spurði hvernig hann gæti verið öruggur um að þetta væru krónurnar hans.

Wei Li naut lífsins á Íslandi fyrir einhvern hluta myntarinnar sem var í bestu ástandi og gaf síðan Samhjálp það sem eftir var áður en hann yfirgaf landið og hélt aftur til Kína.

„Ég geri mér fulla grein fyrir því að saga mín hljómaði ótrúlega en hún var samt sönn,“ segir Wei Li í Facebook-spjalli við blaðamann og er auðsýnilega ánægður með niðurstöðuna. Hann segist ekki bera kala til Arion banka og annarra fjármálafyrirtækja fyrir að neita að taka við myntinni. „Þetta var góð ferð og ég naut mín á Íslandi. Ég gaf um milljón til Samhjálpar, eyddi smávegis og restin er í Arion banka,“ segir Li. Að hans sögn er kunningi hans sem hann kynntist á Íslandi með kvittanir bankans.

Li segist þó hafa um ýmislegt annað að hugsa því um miðjan júnímánuð hyggst hann flytjast búferlum til Calgary í Kanada með fjölskyldu sína. „En ég er viss um að ég heimsæki Ísland aftur,“ segir Li.

Niðurstöður rannsóknarinnar breytir ekki afstöðu Arion banka í málinu. Bankinn mun ekki taka við krónum Li. „Okkur ber ekki skylda til þess að taka við fjármunum frá einstaklingum sem eru ekki viðskiptavinir bankans,“ segir Haraldur Guðni Eiðsson, upplýsingafulltrúi Arion banka. Þá bendir hann á að uppruni fjármunanna sé óljós og bankinn þurfi að lúta ströngum reglum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.