Dagur íslenskrar náttúru er haldinn hátíðlegur í dag. Dagurinn er fæðingardagur Ómars Ragnarssonar og er tileinkaður því starfi sem fjölmiðlamaðurinn hefur unnið á sviði náttúruverndar. Sjálfur fagnar Ómar áttræðisafmæli sínu á morgun en lítið verður um fagnaðarlæti í tilefni dagsins.

„Ástandið í þjóðfélaginu er þannig að ég ætla ekkert að gera í tilefni dagsins. Ég hef vanalega verið viðstaddur afhendingu verðlauna umhverfis- og auðlindaráðuneytisins í tilefni dagsins en ekki í ár.“

Hann segist reikna með því að eyða deginum við skrifborðið á heimili sínu þar sem hann vinnur að fjölbreyttum verkefnum í tölvunni. „Ég er með nokkur verkefni í vinnslu. Það er í mörg horn að líta og ég má engan tíma missa til þess að ná að klára þessi verkefni.“

Ómar segir margt hafa breyst varðandi náttúruvernd hérlendis undanfarinn áratug. „Íslendingar eru orðnir mun meðvitaðri um þessi ómetanlegu auðævi sem þjóðin á. Hins vegar má ekki sofna á verðinum, það er ekkert lát á hugmyndum um að nýta náttúruna í gróðaskyni. Ég líki þessu oft við að ef mannkyninu vantaði gull, silfur og kopar þá yrði það seint fyrsta verk að bræða allt úr Versölum.