Svo virðist sem að engin þeirra sem varð vitni að hrotta­legri líkams­árás í mið­bæ Reykja­víkur á dögunum hafi tilkynnt á­rásina til lög­reglunnar. Þetta kemur fram í svörum lög­reglunnar á höfuð­borgar­svæðinu við fyrir­spurn Frétta­blaðsins.

DV hefur fjallað ítarlega um málið og birt myndbandið.

Mynd­band af hrotta­legri líkams­á­rás í mið­bæ Reykja­víkur hefur verið í dreifingu af sam­fé­lags­miðlum síðustu vikur. Á mynd­bandinu sést maður liggja ofan á öðrum manni og láta höggin dynja á and­litinu á honum. Á myndbandinu sést einnig að minnsta kosti fimm vitni sem mörg hver eru með símann í hendinni. Engum datt hins vegar í hug að hringja í lögregluna.

Árásin átti sér stað á gatnamótum Veltusunds og Hafnarstrætis í miðbæ reykjavíkur. Á myndbandinu má sjá karlmann ráðast á annan mann og slá hann margoft í andlitið og líkamann með krepptum hnefa. Fórnarlambið nær á einum tíma­punkti að standa upp og reynir að koma sér undan en kemst skammt þar sem á­rásar­maðurinn heldur í hann.

Árásarmaðurinn nær manninum síðan aftur í jörðina og slær hann af öllu afli með krepptum hnefa í andlitið með þeim af­leiðingum að maðurinn rotast, af mynd­bandinu að dæma. Hendur hans stífna upp og hann liggur ó­vígur eftir á­rásina.

Þrjú vitni sjást hér standa og fylgjast með er maðurinn var handrotaður í miðbænum.
Ljósmynd/skjáskot

Enginn tilkynning til lögreglunnar

Sam­kvæmt Guð­mundi Pétri Guð­munds­syni, lög­reglu­full­trúa hjá lög­reglunni á höfuð­borgar­svæðinu, er á­rásin ekki skráð í LÖKE- kerfi lög­reglunnar.

„Það er ekkert í LÖKE-kerfinu sem hægt er að tengja þetta við,“ segir Guð­mundur í sam­tali við Frétta­blaðið en lög­reglan skoðaði nokkra mánuði aftur í tímann til að reyna finna málið.

„Við­komandi sem verður fyrir þessum höggum á náttúru­lega bara að kæra. Á meðan hann kærir ekki neyðum við hann ekki til þess,“ segir Guð­mundur.

„Ég sendi líka tölvu­póst á alla lög­reglu­menn á höfuð­borgar­svæðinu og enginn kannast við neitt. Svo ég kíki ég líka í LÖKE-kerfið og það er ekkert sem tengir þetta saman,“ segir Guð­mundur.