„Ég gæti aldrei ekki sagt neitt annað en að þetta hafi verið erfiður tími hérna í prestakallinu,“ segir séra Sunna Dóra Möller, settur sóknarprestur í Digranes- og Hjallakirkju um mál séra Gunnars Sigurjónssonar.

Gunnar var settur í leyfi í desember síðastliðinn vegna ásakana sex kvenna um kynferðislega áreitni, kynbundið ofbeldi og einelti innan kirkjunnar.

Sunna Dóra segir Gunnar í leyfi til 1. mars næstkomandi og þangað til sé málið í rannsókn hjá óháðu teymi sem starfar utan allar stofnanir kirkjunnar og er samansett af lögfræðingi, geðlækni og Rögnu Björg Guðbrandsdóttur, teymisstjóra Bjarkarhlíðar.

Endanleg ákvörðun hjá biskupi

Sunna Dóra segir nýjar starfsreglur innan kirkjunnar taka mjög hart á öllum málum er varða kynbundið ofbeldi, kynferðislega áreitni, kynferðisbrot og einelti. Eftir rannsókn óháða teymisins sé endanlegt vald hjá biskupi um hvað verði gert í málinu.

Að sögn Sunnu Dóru hefur starfið innanhúss ekki verið auðvelt frá því að málið kom upp en að innan prestkallsins starfi samheldinn hópur sem reyni að halda dampi í starfinu. „En auðvitað hafa svona hlutir að sjálfsögðu alveg heilmikil áhrif.“

Sunna Dóra segir ákveðið óvissuástand ríkja, margir upplifi sorg og ákveðin áföll sem sé eðlilegt.

„Við reynum að takast á við það sem kemur upp á hverjum degi, gerum það saman og ræðum saman og reynum að standa í lappirnar, það er ekkert annað í boði,“ segir Sunna Dóra og bætir við að þetta sé alls ekki auðvelt.

Upplifa öryggi

Sunna Dóra segist fagna því að málið sé rannsakað af óháðum aðilum og að þetta sé í fyrsta skipti á hennar ferli sem það er heimild að setja einstakling í leyfi á meðan mál eru rannsökuð.

„Við í rauninni fögnum því, þannig upplifum við ákveðið öryggi og faglegheit í þessari rannsókn. Við treystum því að þetta ferli hafi bara sinn gang þó við að sjálfsögðu vitum ekkert hver niðurstaðan verður,“ segir Sunna Dóra.

Flókið að snúa til baka

Spurð hvað verði snúi Gunnar aftur til starfa innan prestkallsins eftir að rannsókn málsins lýkur segist Sunna Dóra ekki geta lýst því yfir að allir kvenprestar myndu hætta. „Ég held að það myndu margir hugsa sinn gang, hvort þeir myndu telja sig vera stætt af því að starfa með meintum geranda.“

Að sögn Sunnu Dóru yrði það afskaplega flókið að snúa til baka og að allt yrði eðlilegt á ný.

„Þetta er allt öðruvísi en þegar við tölum um einfaldan samskipta ágreining þar sem inn kemur vinnustaðasálfræðingur og lagar, þegar við erum að deila um mál eins og hvort það eigi að vera áfengt vín í altarisgöngu eða ekki. Við erum að tala um allt, allt, allt annars konar mál þar sem er mikill sársauki og sorg, áfallastreita og fleira í gangi. Ég held ég geti sagt það heiðarlega að þegar maður fer af stað í svona vegferð þá veit maður það líka að við förum ekki til baka það er bara þannig,“ segir Sunna Dóra.

Enginn sagt upp

Sunna Dóra segir kirkjuna bera mikla ábyrgð og sinni dýrmætri þjónustu. „Okkar ábyrgð er ekki bara að hugsa um eigin hag – líka bara að kirkjan sé heil og heilbrigð.“

Spurð hvort einhverjir starfsmenn hafi hætt vegna málsins segir Sunna Dóra svo ekki vera. „Það eru allir í starfi ennþá.“