Nokkrir stórir skjálftar hafa mælst yfir 4 í dag og fjölmargir eftirskjálftar fylgt í kjölfarið. Skjálftahrinan er ekkert að róast að sögn Veðurstofu Íslands og fylgjast Almannavarnir og náttúruvávöktun Verðustofu grannt með stöðu mála.

Bæring Gunnar Steinþórsson tölvunarfræðingur hefur gert fólki kleift að sjá jarðskjálftavirkni á Reykjaneshrygg í þrívíðarmyndformi. Hann birti nýlega myndband sem gefur áhugaverða sýn á virknina þann 24. febrúar síðastliðinn

Á vefsíðu hans sem hann gerði fyrir sex árum er hægt að sjá jarðskjálftana í þrívíðarformi. Hann hefur unnið að gerð að nýjum vef í frítíma sínum frá árinu 2014 þegar jarðskjálftavirkni í Bárðarbungu hófst snögglega. Bæring sagði í samtali við Fréttablaðið í fyrra að hann fái alltaf smá innspýtingu af metnaði þegar það kemur mikil jarðskjálftavirkni.

Mynd frá klukkan 17:30 þann 28. febrúar .
Mynd: Skjáskot

Hér fyrir neðan má sjá myndræna framsetningu á jarðskjálftum á Reykjanesskaga frá því á miðvikudag, þann 24. febrúar.

Bæring setti saman myndband og notaði upplýsingar um staðfesta jarðskjálfta, bæði sem voru yfirfarnir og óstaðfestir sem komu beint úr sjálfvirku mælakerfi Veðurstofu Íslands.

Stærsti jarðskjálftinn þann dag var að stærð 5,7 og varð 3,3 kílómetra suðsuðvestur af Keili á Reykjanesi klukkan sex mínútur yfir tíu um morguninn. Skjálftinn fannst víða á Suðvesturhorni landsins, m.a. í Vestmannaeyjum.