„Ég held að við höfum safnað nægum sönnunargögnum. Enginn vafi leikur á því að veiðar á þessum stóru sjávarspendýrum brjóta í bága við gildandi reglur um velferð dýra, “ segir Arne Feuerhahn forsvarsmaður dýraverndurnasamtakanna Hard to Port í yfirlýsingu sem samtökin hafa sent frá sér ásamt myndum frá löndun á tveimur langreyðum í hvalstöðinni í Hvalfirði í gær.

„Myndefni okkar talar sínu máli og við erum reiðubúin að láta ábyrgum yfirvöldum þær í té það, ef þess er óskað,“ segir einnig í yfirlýsingunni.

Myndir frá Hard to Port dýrverndarsamtökunum

Samtökin fullyrða að ekki hafi verið staðið að aflífun dýrsins með viðeigandi hætti. Þetta sé þriðja skjalfesta tilfellið af ósprengdri sprengju sem hafi hæft dýrin án þess að drepa þau sem sé ómannúðlegt.

Auk þess hafi annar hvalurinn sem var kvenkyns verið verið kálfafullur og hafa senda samtökin frá sér myndir sem sýni þetta.

Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir sagði á Fréttavaktinni í gærkvöldi að hún fagnaði nýjum reglum sem Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra væri nú að kynna á samráðsgátt stjórnarráðsins um að dýralæknir yrði til eftirlits um borð í hvalskipunum til þess að tryggja að dýravelferð. Opin umræða um þessi mál væri einnig af hinu góða.