Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er með talsverðan viðbúnað í miðbæ Reykjavíkur, eins og greint hefur verið frá.
Eftir að skilaboð fóru á dreifingu manna á milli á samfélagsmiðlum í vikunni um að í skipulagningu væri meint hefndarárás vegna hnífstungu á Bankastræti Club síðustu helgi sem mögulega myndi einnig beinast að saklausum borgurum tilkynnti lögreglan að hún yrði með stóraukin viðbúnað í miðbænum um helgina.
Rafn Hilmar Guðmundsson, aðalvarðstjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sagði kvöldið hafa farið rólega af stað þrátt fyrir að margir hefðu verið í miðbænum snemma í kvöld.
Þá sagði Rafn Hilmar enga hættu hafa staðið að almennum borgurum eða lögreglu það sem af er kvöldi en sagði ómögulegt að segja við hverju er að búast. „Það fer eftir því hverjir ætla út á skemmtanalífið,“ sagði hann.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu birti fyrr í kvöld Facebook-færslu þar sem þau greindu frá auknu eftirliti í miðbænum. „Við erum hér fyrir þig,“ sagði lögreglan í færslunni.
„Göngum hægt um gleðinnar dyr og högum okkur vel,“ sagði einnig í færslunni.
Blaðamaður Fréttablaðsins kannaði stöðuna og tók eftirfarandi myndir af lögreglubílum sem staðsettir voru víða um miðbæinn.





