Talið er að minnst 1.300 manns hafi látist í Tyrklandi og nágrannaríkinu Sýrlandi vegna jarðskjálftans sem reið yfir suðurhluta Tyrklands í nótt.
Forseti Tyrklands greindi frá því að meira en 900 manns hafi látist í Tyrklandi og greint hefur verið frá því að yfir 300 manns hafi látist í Sýrlandi vegna skjálftans.
Skjálftinn var 7,8 að stærð og fylgdu öflugir eftirskjálftar í kjölfarið. Upptökin voru skammt frá borginni Gaziantep, ekki langt frá landamærum Sýrlands.
Annar stór skjálfti reið yfir í Tyrklandi nú á ellefta tímanum. Jarðskjálftinn var sambærilegur að stærð og sá fyrri en samkvæmt The Guardian var hann á meira dýpi.
Búist er við að tala látinna muni hækka en yfir fimm þúsund manns eru særðir.
Minnst tíu borgir í Tyrklandi urðu fyrir áhrifum skjálftans: Gaziantep, Kahramanmaras, Hatay, Osmaniye, Adiyaman, Malatya, Sanliurfa, Adana, Diyarbakir og Kilis. Þá fannst hann einnig í Líbanon og á Kýpur.
Nokkrar þjóðir hafa lofað aðstoð við björgunaraðgerðir í kjölfar skjálftans og skoðar Slysavarnafélagið Landsbjörg möguleika á að senda sérfræðinga í rústabjörgun til Tyrklands.
Engin ákvörðun hefur enn verið vegna þessa en Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að málið muni skýrast í dag.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sendi samúðarkveðjur til Tyrklands og Sýrlands á Twitter nú í morgun.
„Hræðilegar fréttir frá Tyrklandi og Sýrlandi,“ skrifar Katrín á Twitter-síðu sinni. „Fyrir hönd Íslendinga sendi ég innilegar samúðarkveðjur til allra sem hafa orðið fyrir áhrifum þessa hræðilega harmleiks.“
Devastating news from Turkey and Syria. On behalf of the Icelandic people I send our sincerest condolences to everyone that has been affected by this horrific tragedy.
— Katrín Jakobsdóttir (@katrinjak) February 6, 2023






