Talið er að minnst 1.300 manns hafi látist í Tyrklandi og nágrannaríkinu Sýrlandi vegna jarðskjálftans sem reið yfir suðurhluta Tyrklands í nótt.

Forseti Tyrklands greindi frá því að meira en 900 manns hafi látist í Tyrklandi og greint hefur verið frá því að yfir 300 manns hafi látist í Sýrlandi vegna skjálftans.

Skjálftinn var 7,8 að stærð og fylgdu öflugir eftir­skjálftar í kjöl­farið. Upp­tökin voru skammt frá borginni Gazian­tep, ekki langt frá landa­mærum Sýr­lands.

Annar stór skjálfti reið yfir í Tyrklandi nú á ellefta tímanum. Jarðskjálftinn var sambærilegur að stærð og sá fyrri en samkvæmt The Guardian var hann á meira dýpi.

Búist er við að tala látinna muni hækka en yfir fimm þúsund manns eru særðir.

Minnst tíu borgir í Tyrk­landi urðu fyrir á­hrifum skjálftans: Gazian­tep, Kahraman­maras, Hatay, Osmani­ye, Adi­yaman, Malatya, San­liurfa, Adana, Di­yar­bakir og Kilis. Þá fannst hann einnig í Líbanon og á Kýpur.

Nokkrar þjóðir hafa lofað aðstoð við björgunaraðgerðir í kjölfar skjálftans og skoðar Slysavarnafélagið Landsbjörg möguleika á að senda sérfræðinga í rústabjörgun til Tyrklands.

Engin ákvörðun hefur enn verið vegna þessa en Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að málið muni skýrast í dag.

Hér má sjá hvar upptök skjálftans voru.
Fréttablaðið/Graphic News

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sendi samúðarkveðjur til Tyrklands og Sýrlands á Twitter nú í morgun.

„Hræðilegar fréttir frá Tyrklandi og Sýrlandi,“ skrifar Katrín á Twitter-síðu sinni. „Fyrir hönd Íslendinga sendi ég innilegar samúðarkveðjur til allra sem hafa orðið fyrir áhrifum þessa hræðilega harmleiks.“

Fréttablaðið/Getty Images
Fréttablaðið/Getty Images
Fréttablaðið/Getty Images
Fréttablaðið/Getty Images
Fréttablaðið/Getty Images
Fréttablaðið/Getty Images
Fréttablaðið/Getty Images