Varnar­mála­ráðu­neyti Banda­ríkjanna, Pentagon, hefur nú stað­fest að myndir og mynd­bönd af „ó­þekktum fljúgandi fyrir­brigðum,“ sem tekin voru árið 2019 og var í kjöl­far lekið á netið séu raun­veru­legar en myndirnar voru teknar af á­höfn banda­ríska sjó­hersins.

Myndirnar sýna fyrir­bæri blikkandi í skýjunum en Sue Gough, tals­maður Pentagon, greindi frá því í sam­tali við CNN að um­ræddar myndir hafi verið af fjórum mis­munandi fyrir­bærum. Eitt þeirra var þrí­hyrnings­laga, eitt kúlu­laga, eitt eins og „akarn,“ og eitt líktist ein­hvers­konar loft­belg úr málmi.

Að sögn Gough gefur varnar­mála­ráðu­neytið sem minnst upp hvað at­huganir á þeirra vegum leiða í ljós, meðal annars varðandi ó­stað­fest fyrir­bæri, til þess að við­halda öryggi og koma í veg fyrir að mögu­lega skað­legar upp­lýsingar lendi í höndum and­stæðinga.

Starfs­hópur um ó­þekkt fljúgandi fyrir­brigði var stofnaður síðast­liðinn ágúst til þess að rann­saka til­felli þar sem ó­þekkt fyrir­bæri koma við sögu og er at­vikið sem um ræðir til rann­sóknar.