Þor­steinn Jóhanns­son, sér­fræðingur hjá Um­hverfis­stofnun, segir að á vorin valdi þurrar götur og raka­stigið því að um­ferð bíla minnki loft­gæði um­tals­vert.Þar vegi mest notkun nagla­dekkja. Þá telur hann að bæta mætti loft­gæðin með því að ryk­binda götur í stað þess að nota götu­sópa.

„Þó svo að loft­gæðin séu mælan­lega verri á þessum tíma árs þá er dagur eins og var í gær ekki þannig að við sendum frá okkur við­vörun um tak­mörkun á úti­veru. Það er hins vegar þannig að þeir sem eru með mikinn astma og eldra fólk getur fundið fyrir ein­kennum vegna þessa svif­ryks, sem er mælan­lega hærra á dögum þar sem er þurrt og stillt,“ segir Þor­steinn.

„Ís­land er alla jafna í einu af þremur efstu sætunum í ár­legri skýrslu Lofts­lags­stofnunar Evrópu. Þar eru Finn­land, Sví­þjóð og Eist­land alla jafna við toppinn,“ segir hann.

„Til þess að stemma enn betur stigu við því að loft­gæðin versni mætti í fyrsta lagi minnka notkun á nagla­dekkjum þegar göturnar eru ekki hálar. Svo gefur ryk­binding á stofn­brautum með salt­lausn, sem Svíar og Finnar notast við, betri raun en að sópa göturnar líkt og við gerum. Ef götu­sópar eru notaðir þyrfti að spúla göturnar í kjöl­farið til þess að það skili betri árangri. Mér finnst Vega­gerðin og sveitar­fé­lögin vera opin fyrir því að nota ryk­bindingu og vonandi verður stefnu­breyting í þá átt á næstu árum,“ segir sér­fræðingurinn.