Mohammed Bakri flúði heima­land sitt, Palestínu, árið 2018 og endaði flóttann í Grikk­landi þar sem hann fékk vernd. Vegna slæmra að­stæðna í Grikk­landi, heimilis­leysis og CO­VID-19 á­kvað hann að fara þaðan og til Ís­lands vegna þess að hann taldi lík­legra að hann gæti átt gott líf hér en þar. Mohammed er há­skóla­menntaður og stundaði nám í fjögur ár við hag­fræði og lýð­heilsu­vísindi en hefur einnig unnið sem kokkur, ljós­myndari og er góður í fót­bolta og að mála.

„Ég bjó í tjaldi. Það var ekkert rennandi vatn, ekkert raf­magn og engin hiti á veturna. Of­stækis­hópar og fólk með for­dóma réðust reglu­lega á flótta­menn og brenndu tjöldin okkar. Heil­brigðis­kerfið var í molum og sem dæmi þá voru að­eins tveir hjúkrunar­fræðingar fyrir 8.000 manns í flótta­manna­búðunum,“ segir Mohammed til að undir­strika það að hann geti ekki farið aftur til Grikk­lands, og vilji það ekki.

Hann segir að maturinn sem var í boði hafi alltaf verið út­runninn og lítið af honum og að fólk hafi dáið í þessum hræði­legu að­stæðum. 8.000 manns hafi búið í flótta­manna­búðunum en þær að­eins gerðar fyrir 1.300. Tjaldið hans átti að­eins að rúma tvo en í því bjuggu fimm.

Það var betur komið fram við hunda. Það er eitt­hvað mikið að þarna og ekki í jafn­vægi

Kynþáttafordómarnir mjög miklir

Mohammed er að­eins 26 ára gamall og kom til Ís­lands síðasta sumar, einn. Fjöl­skyldan hans er enn í Palestínu og hann þekkir engan í Grikk­landi. Hann segist ekki eiga neina mögu­leika á að finna sér vinnu þar eða heimili.

„Ef ég fengi vinnu þar, eða að­gang að heil­brigðis­þjónustu og önnur grunn­mann­réttindi væru tryggð mér í Grikk­landi, þá myndi ég vera þar á­fram. Veðrið er nær því sem ég þekki, en það er ekki þannig,“ segir Mohammed.

Þá segir hann að að­stæður í Grikk­landi hvað varðar kyn­þátta­for­dóma séu orðnar svo slæmar að honum hafi oft liðið eins og ekki væri komið fram við hann eins og mann­eskju.

„Það var betur komið fram við hunda. Það er eitt­hvað mikið að þarna og ekki í jafn­vægi,“ segir Mohammed.

Hann segir að hann hafi reynt að taka myndir og senda fjöl­skyldu sinni en að lög­reglan hafi stöðvað hann og tekið af honum símann og mynda­vélina og að það séu miklir for­dómar hjá al­menningi og lög­reglu í Grikk­k­landi fyrir flótta­mönnum.

„Mér leið í fyrsta sinn í langan tíma eins og mann­eskju þegar ég kom til Ís­lands, lands sem virðir mann­réttindi og mann­úð. Ég hef gert margt síðan ég kom til Ís­lands eins og að fara í ræktina og spila fót­bolta í Kefla­vík. Ég fór til Rauða krossins til að læra ís­lensku, svo ég gæti verið í góðu skapi og gleymt hryllingnum sem ég upp­lifði í Grikk­landi,“ segir Mohammed.

Mohammed segir að hann geti ekki farið aftur og það bíði hans ekkert í Grikklandi. Hann langi að vera áfram á Íslandi.
Fréttablaðið/Stefán

Annað hvort fer hann sjálfur eða tekinn með valdi

Mohammed fékk ný­verið sím­tal frá stoð­deild ríkis­lög­reglu­stjóra þar sem honum var tjáð að hann ætti flug­miða aftur til Grikk­lands og ef hann myndi ekki þiggja flugið yrði honum vísað úr landi síðar með valdi.

„Lög­reglan hafði sam­band og sagði að mér yrði annað hvort vísað með valdi úr landi eða ég gæti valið að fara sjálfur þann 10. apríl,“ segir Mohammed í sam­tali við Frétta­blaðið.

Honum var ekki gefin dag­setning á það hve­nær honum yrði vísað með valdi úr landi.

Spurður hvað hann ætli að gera segir Mohammed að þetta sé ekki val. Hann geti ekki farið aftur til Grikk­lands. Það sé ekkert þar fyrir hann.

„Ég get ekki farið aftur. Grikk­land var hel­víti fyrir mig. Ég veit ekki hvað ég á að gera því ég vil vera hér á­fram,“ segir Mohammed.

Spurður hvernig honum leið þegar hann fékk sím­talið frá stoð­deildinni segir Mohammed að það hafi komið sér á ó­vart og hann honum hafi liðið veru­lega illa alla daga síðan.

„Líf mitt er mar­tröð. Ég bjóst ekki við þessu hér á Ís­landi því ég hélt að yfir­völd hér vissu af því hvernig að­stæður eru í Grikk­landi og að hér væri fólki ekki vísað til Grikk­lands, eins og annars staðar. Ég hef ekki getað sofið og er stressaður að lög­reglan komi hve­nær sem er til að færa mig úr landi,“ segir Mohammed.

Mohammed hefur tekið sig saman við aðra flótta­menn í sömu stöðu til að mót­mæla brott­vísununum. Þau mót­mæltu síðasta föstu­dag og stefna á að mót­mæla aftur næsta mánu­dag. Í yfir­lýsingu í við­burði mót­mælanna kemur fram að alls standi tíu flóttamenn að mótmælunum og að kröfur þeirra séu einfaldar. Þau vilji að öllum þvinguðum brottvísunum verði hætt og að komið sé fram við þau af mannúð. Að yfirvöld endurskoði það að fólk sé sent aftur til Grikklands og að þau fái að vera partur af íslensku samfélagi.

„Ég er há­skóla­menntaður og vill læra meira hér á ís­landi. Ég hafði ekkert val um að sækja um vernd í Grikk­landi því þú ert neyddur til að gera það þegar þú kemur til landsins. Það er ekki val. Ég elska Ís­land og er orðinn ást­fanginn af landinu. Ég skoðaði landið áður en ég kom og valdi að koma hingað,“ segir Mohammed.

„Ég get ekki farið aftur og myndi frekar deyja en að fara aftur til Grikk­lands og ég er ekki sá eini sem hugsar þannig,“ segir Mohammed að lokum.

Lögmaður Mohammed er Magnús D. Norðdahl.

Með tíu mál til skoðunar

Að sögn lög­fræðings Mohammeds, Magnúsar D. Norð­dahl, er hann ekki eini flótta­maðurinn á Ís­landi, í þessari stöðu. Hann segir að ekki sé um að ræða svo­kölluð Dyflinnar­reglu­gerðar­mál sem áður hafa verið til um­ræðu hér á landi, heldur séu þessir ein­staklingar búnir að fá vernd í Grikk­landi, en geti ekki verið þar vegna slæmra að­stæðna.

Frétta­blaðið greindi frá því í fyrr í dag að alls séu 34 ein­staklingar sem annað­hvort er búið að vísa úr landi á þessu ári eða hafa fengið eins sím­tal og Mohammed frá stoð­deild ríkis­lög­reglu­stjóra um að yfir­gefa landið.

Flýja aðstæður í Grikklandi

Magnús segir að munurinn á þessum tveimur séu að í Dyflinnar­málum þá séu málin komin til með­ferðar í öðru ríki og það sé heimilt, en ekki skylt, að vísa fólki aftur til þeirra landa sem hafa málin til með­ferðar.

„Þessi mál eru hins vegar þannig að þetta eru aðilar sem sóttu um vernd í Grikk­landi, og fengu vernd þar, en flýja síðan að­stæður þar vegna þess að þær eru al­ger­lega ó­full­nægjandi. Margir hafi lýst því að þau njóti meiri stuðnings á meðan málið er til með­ferðar en þegar þau eru komin með vernd. Það eru margar al­þjóð­legar skýrslur sem styðja það. Það er ekkert nýtt. Staðan er þannig núna að það er verið að synja þessum hópi um­sækj­enda um al­þjóð­lega vernd hér á landi og um frestun réttar­á­hrifa,“ segir Magnús í sam­tali við Frétta­blaðið.

Hann segir að á stofunni hans séu tíu slík mál til skoðunar og það eigi að flytja eitt slíkt mál í héraðs­dómi í júní en að það geti vel verið að það verði búið að flytja mann­eskjuna úr landi sem málið á við.

„En í málinu reynir á stöðuna í Grikk­landi og hvort að mat stjórn­valda sér for­svaran­legt því að stjórn­völd líta svo á að það sé for­svaran­legt að senda fólk aftur til Grikk­lands og að staðan þar sé ekki nægjan­lega al­var­leg svo að fólk fái hér al­þjóð­lega vernd eða dvalar­leyfi á grund­velli mann­úðar­sjónar­miða,“ segir Magnús.

Hann segir að allir sem hafi verið í Grikk­landi lýsi að­stæðum þar sem hræði­legum og það vilji enginn fara aftur. Hann vísar til þess að hér hafi fólki verið veitt dvalar­leyfi á grund­velli mann­úðar­sjónar­miða og vísar meðal annars til mála Za­inab Safari og Sarwary-feðganna, en báðar fjöl­skyldur fengu að enda að vera á­fram á landinu eftir að hafa fengið synjun um vernd.

„Því miður eru ís­lenskt stjórn­völd enn að vísa fólki aftur til Grikk­lands í þær hræði­legu að­stæður sem eru þar,“ segir Magnús að lokum.