Norska lögreglan hélt áfram í dag að yfirheyra Espen Ander­sen Bråthen vegna hryðjuverkarárásarinnar þann 13. október í Kongsberg í Noregi. Rannsókn lögreglu miðar áfram en samkvæmt norska miðlinum NRK ernotast við talsvert magn myndskeiða við rannsóknina. Mynd­böndin eru sögð flest úr Coop versluninni sem er staðsett nærri vettvangi árásarinnar og úr tveimur Teslum sem voru lagðar nærri vett­vangi.

Lögreglan telur myndböndin mikil­væg sönnunar­gögn á­samt vitnis­burði þeirra sem voru á vett­vangi.

Ýmislegt hefur komið fram um árásina frá því að hún átti sér stað og í umfjöllun NRK er, meðal annars, fjallað um stutt myndskeið sem þau fengu sent frá íbúa í Kongsberg sem varð vitni að því þegar Bråthen var handtekinn. Í myndskeiðinu má sjá síðustu andar­tökin áður en lög­regla hand­tók Bråthen.

Í um­fjöllun NRK segir að áður en lög­reglan hand­samaði hann hafi þau skotið við­vörunar­skoti.

Þeirra látnu hefur verið minnst eftir árásina.
Fréttablaðið/EPA

Valdi fórnarlömb af handahófi

Talið er að fórnar­lömbin hafi verið valin af handa­hófi. Ná­granni þeirra látnu sendi miðlinum mynd­skeiðið sem hann tók þegar Bråthen gekk laus um hverfið.

„Ég heyrði skot­hvell, svo ég stóð upp og fór að glugganum. Þá sé ég að lög­reglan stendur yfir mann­eskju,“ segir vitnið, sem vill ekki láta nafns síns getið, í sam­tali við NRK.

Hann segir að senan hafi verið alveg ó­trú­leg og að hann hafi séð fjölda lög­reglu­manna standa yfir manninum sem var hand­tekinn og ekki vitað hvað hafði gerst.

Lög­reglan hóf leit að Bråthen klukkan 18.13 eftir að hafa fengið fjölda skila­boða frá fólki í Kongs­berg um mann sem gekk laus og skaut fólk með boga og örvar. Bråthen var svo hand­tekinn 18.47.