Myndband sem sýnir forsætisráðherra Finnlands sletta rækilega úr klaufunum hefur verið í mikilli dreifingu á netinu. Þetta kom fyrst fram á finnska miðlinum Iltalehti en í myndbandinu sést Sanna Marin syngja og dansa ásamt þekktum einstaklingum úr finnsku samfélagi, meðal annars þingmanninum Ilmari Nurminen og fréttakonunni Tinni Wikström.

Hópurinn hefur drykkjarglös við hönd og syngur og dansar ákaft en Sanna Marin hefur áður verið gagnrýnd fyrir að skemmta sér einum of mikið, meðal annars eftir að hún sást á tónlistarhátíðinni Ruisrock í Finnlandi.

Margir netverjar kepptust þó við að hæla forsætisráðherranum í það skiptið fyrir unglegan og hressandi klæðaburð eftir að myndir birtust frá hátíðinni.

Sanna Marin hefur einnig legið undir ásökunum um að fíkniefni hafi verið viðhöfð í gleðskapnum en segist þó ekki hafa neitt að fela og hefur hundsað tillögur um að hún ætti að gangast undir eiturlyfjapróf.

„Ég dansaði, söng og fagnaði, allt saman löglegir hlutir,“ sagði Sanna Marin sem benti einnig á að hún hefði drukkið áfengi í hófi.

Hún segist enn njóta trausts þingflokks síns en Sanna Marin skráði sig í sögubækurnar þegar hún tók við embætti sínu þá 34 ára gömul en á þeim tíma því varð hún yngsti sitjandi forsætisráðherra heims.