Fjöldi mynd­banda af lög­reglu­þjónum beita, að því er virðist, ó­þarfa of­beldi gegn al­menningi hafa komið upp á yfir­borðið í mót­mælunum sem skekja nú Banda­ríkin. Upp­haf mót­mælanna var líkt Frétta­blaðið hefur fjallað um mynd­band af lög­reglu­þjóni þrengja að öndunar­vegi hins ó­vopnaða Geor­ge Floyd þar til hann lést.

Nú hafa fleiri mynd­bönd af slíkum at­vikum farið í dreifingu og í gær vakti mynd­band af tveimur lög­reglu­þjónum hrinda eldri hvítum manni í jörðina óhug al­mennings.

Hlaut alvarlega höfuðáverka

Maðurinn, sem er 75 ára að aldri, var á gangi í Buffa­lo í New York fylki í gær og hafði verið á frið­samri minningar­at­höfn um Floyd. Í mynd­bandinu sést hann nálgast lög­reglu­menn sem bregðast við með því að ýta honum aftur á bak með þeim af­leiðingum að hann féll á jörðina og rak höfuðið í.

Þar sem maðurinn liggur í jörðinni sést blóð leka úr eyra hans á meðan lög­reglu­mennirnir gefa skipanir án þess að sinna honum. Maðurinn var færður á slysa­deild í sjúkra­bíl þar sem í ljós kom að hann hafði hlotið al­var­lega höfuð­á­verka.

Hrasaði eftir smáátök

Í til­kynningu frá lög­reglunni í Buffa­lo kom fram að maðurinn hafi „hrasað og slasast“ vegna á­taka við mót­mælendur. Rang­færslur lög­reglunnar ollu hneyksli á sam­fé­lags­miðlum þar sem lög­reglan var for­dæmd fyrir við­brögð sín og falskar frétta­til­kynningar.

Jeff Rin­aldo, upp­lýsinga­full­trúi lög­reglunnar, sagði að til­kynningin hafi borist frá lög­reglu­þjónum sem höfðu ekki átt aðild að at­vikinu. Hann greindi einnig frá því að eftir að mynd­bandið hafi komið upp á yfir­borðið hefðu lög­reglu­mennirnir tveir, sem ýttu manninum, verið sendir í launa­laust leyfi.