Verjendur hins átján ára Kyle Rittenhouse, sem myrti tvo einstaklinga og særði þann þriðja í óeirðum í Kenosha í Wisconsin síðasta sumar, saka saksóknara um að hafa ekki lagt fram myndbandsupptöku sem þeir segja lykilsönnunargagn í málinu. Upptakan liggi til grundvallar kröfu þeirra um að málinu verði vísað frá.

Rittenhouse hefur viðurkennt gjörðir sínar en ber fyrir sig sjálfsvörn. Réttarhöldin hafa staðið yfir í tvær vikur og á Rittenhouse yfir höfði sér lífstíðardóm.

Ákæran er í fimm liðum: morð af ásetningi, morð af gáleysi, morðtilraun af ásetningi, að ógna almannaöryggi og ólöglega skotvopnaeign sökum aldurs.

Verjendur Rittenhouse hafa óskað eftir því hann verði sýknaður af öllum ákæruliðum og leitast eftir því að koma í veg fyrir að hægt verði að óska eftir endurupptöku málsins. Þeir hafa sakað saksóknara um að hafa sýnt myndskeið í mun verri upplausn en þeir hefðu í höndunum, til að reyna að sýna fram á að fyrsta skot Rittenhouse hafi ekki verið sjálfsvörn líkt og hann heldur fram.

Verjendur Rittenhouse segja myndbandsupptökuna miðpunkt málsins og telja að saksóknari sé að reyna að skaða hann með því að sýna myndbandið í lélegum gæðum.

Krafa um frávísun málsins hefur ekki verið tekin formlega fyrir í dómstólnum en verður að öllum líkindum tekin fyrir um miðja viku.