Fyrstu skammtar bólu­efnis Pfizer bárust til landsins í morgun með flug­vél frá Amsterdam.

Skammtarnir bárust í tveimur litlum kössum, sem létu ekki mikið fyrir sér fara. Vegna sótt­varna­tak­markana var fjöl­miðlum ekki hleypt inn á Kefla­víkur­flug­völl til að fylgjast með því þegar flug­vélin lenti. Þess í stað mynduðu al­manna­varnir ríkis­lög­reglu­stjóra ferlið og hafa nú út­búið mynd­band af því þegar tekið var á móti efninu, það flutt úr flug­vélinni inn í vöru­geymslu flug­stöðvarinnar og þaðan upp í vöru­flutninga­bíl.

Bíllinn hélt svo með efnið til vöru­skemmu Dis­ti­ca, sem mun sjá um að geyma bólu­efnið þar til það verður sent á heil­brigðis­stofnanir á morgun. Þar var haldinn blaða­manna­fundur í dag þegar efnið var flutt inn í vöru­skemmuna.

Hér má sjá mynd­band al­manna­varna af ferlinu frá því flug­vélin lenti þar til bólu­efnið lagði af stað til Reykja­víkur: