Mynd­band úr öryggis­búnaði lög­reglu­manns í Chi­cago hefur verið birt sem sýnir lög­reglu­manninn Eric Still­man skjóta hinn 13 ára gamla Adam To­ledo til dauða þann 29. mars síðast­liðinn klukkan 3 að nóttu. Í mynd­bandinu sést hvar Still­man eltir To­ledo í gegnum húsa­sund en hann var að rann­saka á­bendingu sem borist hafði um skot­hvelli. AP News greinir frá.

„Upp með hendur! Slepptu henni, slepptu henni!“ skipar Still­man og í mynd­bandinu má sjá hvernig To­ledo snýr sér við og byrjar að lyfta höndum tæpri sekúndu áður en lög­reglu­maðurinn skýtur hann í brjóst­kassann.

Lög­reglu­menn sem voru við­staddir segja að To­ledo hafi verið með skamm­byssu á sér rétt áður en hann var skotinn og í mynd­bandinu má sjá Still­man lýsa vasa­ljósi sínu yfir skamm­byssu sem liggur á jörðinni. Þó má einnig greini­lega sjá að To­ledo hélt ekki á neinu vopni þegar hann var skotinn.

Horfa má á mynd­bandið hér að neðan en les­endur eru varaðir við efni þess sem er mjög sláandi.

Traust á milli lög­reglu og borgara mjög brotið

Mynd­bandið af skot­á­rásinni á­samt öryggis­mynd­böndum frá öðrum lög­reglu­mönnum sem voru einnig við­staddir, mynd­böndum frá vitnum og upp­tökum frá neyðar­línunni voru öll gerð opin­ber á fimmtu­dag af COPA, rann­sóknar­nefnd sem hefur það að mark­miði að draga lög­regluna til á­byrgðar.

Fá­mennur hópur fólks mót­mælti fyrir framan lög­reglu­stöð í Chi­cago á fimmtu­dag en ekki hefur komið til frekari mót­mæla í borginni. Borgar­stjóri Chi­cago, Lori Light­foot, hvatti fólk til að halda friðinn en sagði mynd­bandið hafa verið „virki­lega erfitt að horfa á“.

„Við búum í borg sem hefur verið grátt leikin af langri sögu lög­reglu­of­beldis og van­rækslu. Svo jafn­vel þó að við höfum ekki nægar upp­lýsingar til að taka okkur dóms­vald í þessu til­tekna máli þá er það sannar­lega skiljan­legt af hverju svo margir af í­búum okkar eru að upp­lifa þessar allt of kunnug­legu til­finningar hneykslunar og sárs­auka. Það er aug­ljóst að traust á milli okkar sam­fé­lags og lög­reglu­yfir­valda er langt frá því að vera lagað og er enn mjög brotið,“ sagði Light­foot á blaða­manna­fundi.

Segir Still­man ekki hafa haft neinn annan valkost

Lög­maður Still­mans, Tim Grace, segir To­ledo hafa gefið lög­reglu­manninum engan annan kost en að skjóta.

„Ungi brota­maðurinn var með byssuna í hægri hendi, leit á lög­reglu­manninn sem hefði getað verið túlkað sem til­raun til að miða og byrjaði að snúa sér í áttina að lög­reglu­manninum í til­raun til að snúa byssunni í áttina að honum. Á þessum tíma­punkti stóð lög­reglu­maðurinn and­spænis hættu­legum að­stæðum sem ógnuðu lífi hans. Allar fyrri til­raunir til að róa á­standið og ná fram hlýðni með lög­mætum skipunum höfðu mis­tekist,“ segir To­ledo.

Adeena Weiss-Ortiz, lög­maður fjöl­skyldu To­ledo, segir hins vegar að mynd­böndin tali sínu eigin máli og segir það ekki skipta máli hvort To­ledo hafi haldið á byssu áður en hann sneri sér að lög­reglu­manninum.

„Ef hann var með byssu þá kastaði hann henni burt. Lög­reglu­maðurinn sagði ‚Upp með hendur.‘ Hann hlýddi og hann sneri sér við,“ segir Weiss-Ortiz.