Myndband sem gengið hefur manna á milli á samfélagsmiðlum og Fréttablaðið hefur undir höndum, sýnir bandarísku Hollywoodstjörnuna Ezra Miller taka konu hálstaki og snúa hana niður, á skemmtistaðnum Prikinu í Reykjavík.
Ekki er vitað hvort alvara sé á bakvið hegðum Hollywoodstjörnunnar eða hvort fantatökin sem hann sést beita konuna eigi að vera grín. Einn eiganda og framkvæmdastjóri Priksins segir í samtali við Fréttablaðið að málið sé til skoðunar og hann fordæmi ofbeldi af öllu tagi.
Miller er heimsfrægur leikari og hefur undanfarin ár leikið þungavigtarhlutverk í kvikmyndum líkt og Justice League, We Need To Talk About Kevin og Fantastic Beasts.

Myndbandið birtist fyrst á spjallvefnum Reddit í gær. „Ezra Miller hefur verið á Íslandi í nokkrar vikur. Þetta er hann að missa stjórn eftir að vinur minn bað hann í gríni um að slást,“ stendur skrifað með myndbandinu á ensku á vefnum.
Í samtali við Fréttablaðið segist Geoffrey Þ Huntingdon-Williams, einn eiganda og framkvæmdastjóri skemmistaðarins, ekki vilja tjá sig sérstaklega um þetta tiltekna mál.
„Við viljum því miður ekki tjá okkur sérstaklega um þetta atvik fyrir utan að það er í skoðun,“ segir Geoffrey. „Við á Prikinu tökum fram að við fordæmum ofbeldi af öllu tagi og allar birtingarmyndir þess.“