Mynd­band sem gengið hefur manna á milli á sam­fé­lags­miðlum og Frétta­blaðið hefur undir höndum, sýnir banda­rísku Hollywoodstjörnuna Ezra Miller taka konu háls­taki og snúa hana niður, á skemmti­staðnum Prikinu í Reykja­vík.

Ekki er vitað hvort al­vara sé á bak­við hegðum Hollywoodstjörnunnar eða hvort fanta­tökin sem hann sést beita konuna eigi að vera grín. Einn eig­anda og fram­kvæmda­stjóri Priksins segir í sam­tali við Frétta­blaðið að málið sé til skoðunar og hann for­dæmi of­beldi af öllu tagi.

Miller er heims­frægur leikari og hefur undan­farin ár leikið þunga­vigtar­hlut­verk í kvik­myndum líkt og Justice Leagu­e, We Need To Talk About Kevin og Fantastic Beasts.

Skjáskot úr umræddu myndbandi.

Mynd­bandið birtist fyrst á spjall­vefnum Reddit í gær. „Ezra Miller hefur verið á Ís­landi í nokkrar vikur. Þetta er hann að missa stjórn eftir að vinur minn bað hann í gríni um að slást,“ stendur skrifað með mynd­bandinu á ensku á vefnum.

Í sam­tali við Frétta­blaðið segist Geof­frey Þ Huntingdon-Willi­ams, einn eig­anda og fram­kvæmda­stjóri skemmi­staðarins, ekki vilja tjá sig sér­stak­lega um þetta til­tekna mál.

„Við viljum því miður ekki tjá okkur sér­stak­lega um þetta at­vik fyrir utan að það er í skoðun,“ segir Geof­frey. „Við á Prikinu tökum fram að við for­dæmum of­beldi af öllu tagi og allar birtingar­myndir þess.“