Myndband af hópslagsmálum sem komu upp í Hólagarði í Breiðholti á fimmta tímanum í dag sýna hvernig sjö manna átök fóru fram.
Í myndbandinu heyrast lítil börn gráta og vitni öskra þegar einn árásarmannanna sést hrinda öðrum í gegnum rúðu á pitsastaðnum Pizzunni. Rúðan sést brotna við átökin en átökin héldu þó áfram í einhvern tíma eftir það.
Fréttablaðið greindi frá því fyrr í kvöld að sjónarvottar hafi séð menn veitast að ungmennum og var annar mannanna talinn vera undir áhrifum eiturlyfja. Fjórir lögreglubílar voru kallaðir á vettvang vegna málsins en lögregla vildi ekki tjá sig um málið.
„Við heyrðum börn gráta og sáum tvo menn takast á, annar þeirra virtist vera reyna að slást við börnin sem voru mjög skelkuð,“ sagði starfsmaður Afrozone í samtali við Fréttablaðið fyrr í kvöld. Starfsmaðurinn taldi þó víst að enginn hafi slasast alvarlega eftir átökin.
Vitni sem kom á vettvang að slagsmálunum lokið sagði rúðu hafa verið brotna og að lögregla hafi tekið skýrslu af fólki á svæðinu. „Lögreglan var að ræða við ungan pilt sem hafði greinilega verið að reyna að stöðva átökin.“
Ljóst var að ungi maðurinn sem lögreglan ræddi við hafi hlotið áverka við að reyna að stöðva átökin. „Hann var með sár á höndunum sem blæddi úr,“ benti vitni á í samtali við Fréttablaðið. Ekki er vitað hvort einhver viðriðinn slagsmálin hafi þurft að leita á sjúkrahús vegna áverka.