Nýtt myndband sýnir með skýrum hætti hvernig aurskriðurnar sem féllu í síðustu viku hafa breytt landslaginu á Seyðisfirði.

Myndbandið var útbúið af EFLU verkfræðistofu og sýnir ástandið fyrir og eftir skriðurnar með hjálp kortalíkans.

Líkanið er byggt á gögnum úr dróna sem EFLA hefur flogið yfir svæðið en sérfræðingar verkfræðistofunnar hafa unnið að því að meta aðstæður á svæðinu eftir náttúruhamfarirnar með kortlagningu og gagnasöfnun fyrir Veðurstofu Íslands og Ofanflóðasjóð.

Fram kemur á vef EFLU að vinnan hafi meðal annars falið í sér mælingar og vöktun á jarðlögum, athugun á vatnshæðum í fjallinu og mælingar á færslum á jarðvegi.

Gögnin og þrívíða myndbandið eru sögð koma til með að nýtast til frekari ákvarðana varðandi rýmingu og hreinsun á rýmingarsvæðum.