Lög­reglan í Flórída hefur hafið innan­húss­rann­sókn eftir að mynd­band fór í dreifingu af lög­reglu­þjóni í Sara­sota krjúpa á hálsi manns við hand­töku en at­vikið átti sér stað 18. maí síðast­liðinn. Mynd­bandið hefur vakið þó nokkra at­hygli, sér­stak­lega í ljósi dauða Geor­ge Floyd, sem lést eftir að lög­reglu­þjónn kraup á hálsi hans.

Í mynd­bandinu, sem er um 90 sekúndur að lengd, má sjá þrjá lög­reglu­þjóna hand­taka mann að nafni Patrick Carroll og á einum tíma­punkti má sjá lög­reglu­þjón krjúpa á hálsi Carroll, sem er svartur, á meðan hann kallar eftir út­skýringum um af hverju hann væri hand­tekinn. Carroll leitaði sér ekki læknisaðstoðar eftir atvikið en sagði lögreglumanninn hafa sett mikinn þrýsting á háls hans.

Hófu rannsókn um leið og þau sáu myndbandið

Að því er kemur fram í frétt CNN um málið var maðurinn hand­tekinn vegna gruns um heimilis­of­beldi og hafði veitt lög­reglu við­nám við hand­tökuna. Í skýrslu um málið sagði lög­regla að „minni háttar valdi hafi verið beitt til að vísa manninum til jarðar og halda honum nógu lengi þar til hann hafi róast.“

Sam­kvæmt yfir­lýsingu lög­reglunnar í Sara­sota frá því á þriðju­daginn vissu þau ekki af því að mynd­bandið hafi farið í dreifingu fyrr en á mánu­daginn og á­kváðu að hefja rann­sókn eftir að þeim var bent á mynd­bandið. Þá hefur lög­reglu­maðurinn verið sendur í leyfi en ekki liggur fyrir hvað verður um hina lög­reglu­þjónana sem sjást í mynd­bandinu.

Víða um heim hafa mót­mælendur safnast saman til að mót­mæla að­gerðum lög­reglu eftir and­lát Floyd í síðustu viku og hefur málið skapað miklar um­ræður um hegðun lög­reglu í garð svartra. Mót­mælin hafa nú staðið yfir í um tíu daga og að mestu leiti farið frið­sam­lega fram.