Hraunið sem rennur úr vesturhluta Geldingadala og yfir gönguleið A og ofan í Nátthaga flæðir talsvert hraðar en tungan í austurhluta dalsins.

„Mikill þrýstingur var búinn að byggjast upp í Geldingadölum og kvikan undir skorpunni var búin að lyfta yfirborðinu þangað til að skelin brast og bráðin kvikan þar inni gusaðist niður bratta og þrönga hæð á þessum mikla hraða,“ útskýrir Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur, aðspurður um hraðann á hraunflæðinu.

Hér má sjá myndband sem blaðamaður Fréttablaðsins tók við eystri tungu í Nátthaga í gær.

Vinsælasta leiðin að gosstöðvunum liggur nú frá Suðurstrandarvegi í gegnum Nátthaga en gangan tekur einungis 30 mínútur frá bílastæðinu eða um 45 mínútur að hrauntungunni við gönguleið A. Flestir príla í brekkunni við tunguna enda hefur hraunið flætt yfir gamlan slóða sem göngufólk hefur rutt síðustu vikur og mánuði.

Nýja hrauntungan rennur frá vesturhluta Geldingadala niður í Nátthaga.
Fréttablaðið/Anton Brink

Byggingaverkfræðingar frá Verkís fóru með ýtu og gröfu upp á hæðina frá gönguleið A og upp brekkuna þar sem kaðallinn var. Unnið er að því að reisa fjögurra metra háan og 200 metra langan vegg til að beina flæðinu frá Nátthagakrika.

Byggingaverkfræðingar Verkís vinna við að beina flæðinu öllu ofan í Nátthaga svo það renni ekki ofan í Nátthagakrika. Til stendur að reisa 4 metra háan og 200 metra langan vegg.
Fréttablaðið/Anton Brink