„Má ég daðra við þig?“ spyr Harvey Weinstein Melissu Thompson á skrifstofu fyrirtækis Weinstein í New York í september 2011. Sky News hefur í dag birt myndband sem Thompson tók upp af fundi þeirra, þar sem hún var að kynna honum nýtt myndbands- og greiningarforrit. „Sjáum til, kannski örlítið,“ svarar Thompson.

Í myndbandinu sést hvernig Weinstein tekur sér leyfi til að snerta Thompson á kynferðislegan hátt og tala við hana á kynferðislegum nótum. Hún tekur ekki þátt á sama hátt og reynir að halda sig við að ræða vinnuna. En Weinstein er mjög ágengur.

Thompson segir í fréttinni að hún hafi búist við að hitta markaðsfulltrúa fyrirtækisins en í stað þess hafi Weinstein mætt einn á fundinn, beðið aðra um að fara út og læst að sér.

Í myndbandinu sést meðal annars að Weinstein faðmar hana og snertir þegar þau heilsast. Hann snertir svo læri hennar og axlir á meðan hann talar við hana - auk þess að spyrja hana hvað hún ætli að gera eftir fundinn. „Leyfðu mér að fá þig. Láttu undan. þetta er allt í lagi, viltu halda áfram?“ spyr Weinstein á meðan hann færir hendurnar upp lærið á henni. Hún segir þá við hann að þetta sé of langt gengið.

Í lok myndbandsins fellst Thompson á að hitta hann á fundi í almennu rými á hóteli. Hún seir að Weinstein hafi þess í stað leitt hana upp á hótelherbergi þar sem hún segir hann hafa nauðgað sér.

Weinstein hafnar því alfarið að hafa gerst sekur um kynferðislegt ofbeldi í hennar garð - eða annarra kvenna.

Í yfirlýsingu sakar hann Thompson um að vera í peningaleit. Sky segist ekki hafa greitt henni krónu fyrir myndbandið.