Áfrýjunardómstóll í Danmörku staðfesti í gær lífstíðardóm undirréttar yfir þremur ungum Svíum fyrir morð á tveimur samlöndum þeirra í danska bænum Herlev í júní 2019.
Dómur yfir tveimur ólögráða Svíum til viðbótar var lækkaður úr lífstíðarfangelsi í sextán ár.
Sænsk glæpagengi börðust í Danmörku
Morðin tengjast hatrömu gengjastríði sem geisað hefur í Svíþjóð en fórnarlömbin, tveir 22 og 23 ára sænskir karlmenn, tilheyrðu glæpaklíkunni Shottaz, auk þriðja mannsins sem einnig varð fyrir skotárás en slapp lifandi af vettvangi. Í málatilbúnaði ákæruvaldsins var byggt á því að þeir hafi verið leiddir í gildru í Herlev.
Meðal sönnunargagna saksóknara voru fingraför á vettvangi og á morðvopninu, DNA sýni í fötum sem fundust í bíl sem notaður var til flótta af vettvangi. Þá lagði saksóknari einnig fram myndband af morðunum sem vitni tók upp á símann sinn. Á myndbandinu mátti sjá menn í samskonar fötum og fundust í bílnum.
Fimmmenningarnir voru allir handteknir í Svíþjóð skömmu eftir morðin og voru í kjölfarið framseldir til Danmerkur sem hafði lögsögu í málinu. Þeir eru sagðir hafa tilheyrt Dauðasveitunum svokölluðu, einnig sænskri glæpaklíku en hinn 23 ára Mohamed Ali er að mati dómsins talinn foringi klíkunnar.
Í þessari myndbandssamantekt um átök Dauðasveitanna og glæpaklíkunnar Shottaz má sjá myndir úr upptöku af morðinu í Herlev.
Mohamed Ali neitaði að vera foringi Dauðasveitanna
Mohamed, Benjamin Owusu Afriyie, 26 ára og Mansor Ismail, 21 árs fengu allir lífstíðardóm fyrir morðin sem fyrr segir. Það var aðild þeirra að Dauðasveitunum sem hafði úrslitaáhrif á refsinguna en samkvæmt dönskum lögum er heimilt dæma tvöfalt þyngri fangelsisvist en almenn lög leyfa, hafi brotið verið framið af skipulögðum glæpahópi.
Þetta er í fyrsta skipti sem erlendir ríkisborgarar eru dæmdir á grundvelli umræddra laga að því er fram kemur í frétt SVT
Löggjöfin er ekki ósvipuð íslenskri löggjöf sem heimilar helmingi lengri refsingu sé brot framið með samverknaði tveggja eða fleiri.
Fyrir dómi neituðu allir ákærðu sök og neituðu að tilheyra Dauðasveitunum.
Við meðferð málsins játaði meintur forsprakki, Ali að hafa kveikt í flóttabílnum eftir morðin en neitaði að hafa verið viðstaddur skotárásina sjálfa.
Bíllinn brann þó ekki til kaldra kola og því varðveittist fatnaður morðingjanna og í honum DNA sem tengdi sakborningana við morðin.
Refsing tveggja ólögráða ungmenna lækkuð í 16 ára fangelsi
Yngsti dómþolinn Abraham Abdul-Kader, sem var 17 ára þegar morðið var framið, viðurkenndi aðild að málinu. Hann hélt því hins vegar fram að aðild hans hefði helgast af sjálfsvörn og hótunum í hans garð. Þá hefði aðeins staðið til að drepa annan mannana en hinn hefði verið skotinn fyrir mistök.
Í frétt SVT kemur fram að verjandi hans hafi vonast til að refsingin yfir honum og öðrum ólögráða unglingi yrði milduð en þeir fengu lífstíðardóm í undirrétti, þyngstu refsingu sem ólögráða ungmenni hafa fengið í Danmörku.
Dómurinn lagði hins vegar ekki trúnað á framburð hans um sjálfsvörn og hótanir. Eins og fyrr segir var refsing hans og annars ólögráða unglings milduð niður í 16 ár með dómi áfrýjunardómstólsins í gær.
Hér má sjá umfjöllun Extrabladed um málið: