Á­frýjunar­dóm­stóll í Dan­mörku stað­festi í gær lífs­tíðar­dóm undirréttar yfir þremur ungum Svíum fyrir morð á tveimur sam­löndum þeirra í danska bænum Herlev í júní 2019.

Dómur yfir tveimur ó­lög­ráða Svíum til við­bótar var lækkaður úr lífs­tíðarfangelsi í sex­tán ár.

Sænsk glæpagengi börðust í Danmörku

Morðin tengjast hat­römu gengja­stríði sem geisað hefur í Sví­þjóð en fórnar­lömbin, tveir 22 og 23 ára sænskir karl­menn, til­heyrðu glæpa­klíkunni Shottaz, auk þriðja mannsins sem einnig varð fyrir skot­á­rás en slapp lifandi af vett­vangi. Í mála­til­búnaði á­kæru­valdsins var byggt á því að þeir hafi verið leiddir í gildru í Herlev.

Meðal sönnunar­gagna sak­sóknara voru fingra­för á vett­vangi og á morð­vopninu, DNA sýni í fötum sem fundust í bíl sem notaður var til flótta af vett­vangi. Þá lagði sak­sóknari einnig fram mynd­band af morðunum sem vitni tók upp á símann sinn. Á mynd­bandinu mátti sjá menn í sams­konar fötum og fundust í bílnum.

Fimm­menningarnir voru allir hand­teknir í Sví­þjóð skömmu eftir morðin og voru í kjöl­farið fram­seldir til Dan­merkur sem hafði lög­sögu í málinu. Þeir eru sagðir hafa til­heyrt Dauða­sveitunum svo­kölluðu, einnig sænskri glæpa­klíku en hinn 23 ára Mohamed Ali er að mati dómsins talinn foringi klíkunnar.

Í þessari myndbandssamantekt um átök Dauðasveitanna og glæpa­klíkunnar Shottaz má sjá myndir úr upptöku af morðinu í Herlev.


Mohamed Ali neitaði að vera foringi Dauðasveitanna

Mohamed, Benja­min Owusu Af­ri­yi­e, 26 ára og Man­sor Is­ma­il, 21 árs fengu allir lífs­tíðar­dóm fyrir morðin sem fyrr segir. Það var aðild þeirra að Dauða­sveitunum sem hafði úr­slita­á­hrif á refsinguna en sam­kvæmt dönskum lögum er heimilt dæma tvö­falt þyngri fangelsis­vist en al­menn lög leyfa, hafi brotið verið framið af skipu­lögðum glæpa­hópi.

Þetta er í fyrsta skipti sem er­lendir ríkis­borgarar eru dæmdir á grund­velli um­ræddra laga að því er fram kemur í frétt SVT

Lög­gjöfin er ekki ó­svipuð ís­lenskri lög­gjöf sem heimilar helmingi lengri refsingu sé brot framið með sam­verknaði tveggja eða fleiri.

Fyrir dómi neituðu allir á­kærðu sök og neituðu að til­heyra Dauða­sveitunum.

Við með­ferð málsins játaði meintur for­sprakki, Ali að hafa kveikt í flótta­bílnum eftir morðin en neitaði að hafa verið við­staddur skot­á­rásina sjálfa.

Bíllinn brann þó ekki til kaldra kola og því varð­veittist fatnaður morðingjanna og í honum DNA sem tengdi sak­borningana við morðin.

Refsing tveggja ólögráða ungmenna lækkuð í 16 ára fangelsi

Yngsti dóm­þolinn Abra­ham Abdul-Kader, sem var 17 ára þegar morðið var framið, viður­kenndi aðild að málinu. Hann hélt því hins vegar fram að aðild hans hefði helgast af sjálfs­vörn og hótunum í hans garð. Þá hefði að­eins staðið til að drepa annan mannana en hinn hefði verið skotinn fyrir mis­tök.

Í frétt SVT kemur fram að verjandi hans hafi vonast til að refsingin yfir honum og öðrum ó­lög­ráða ung­lingi yrði milduð en þeir fengu lífs­tíðar­dóm í undir­rétti, þyngstu refsingu sem ó­lög­ráða ung­menni hafa fengið í Dan­mörku.

Dómurinn lagði hins vegar ekki trúnað á fram­burð hans um sjálfs­vörn og hótanir. Eins og fyrr segir var refsing hans og annars ó­lög­ráða ung­lings milduð niður í 16 ár með dómi á­frýjunar­dóm­stólsins í gær.

Hér má sjá umfjöllun Extrabladed um málið: