Mávaplága herjar á íbúa í hverfinu í kringum Lágafellsskóla í Mosfellsbæ. Fuglinn heldur vöku fyrir fólki með gargi sínu og nokkur dæmi eru um að mávarnir hafi ráðist á bæði fólk og gæludýr. „Ógeð,“ „alger plága“ og „óþolandi“ er meðal þess sem fólk hefur að segja um þetta óvænta landnám mávanna á umræðusíðu íbúa í Mosfellsbæ á Facebook.

„Ég hef ekki upplifað annað eins og er búin að búa hérna í tuttugu ár. Þetta er eins og faraldur,“ segir Margrét Dögg Halldórsdóttir íbúi við Klapparhlíð í samtali við Fréttablaðið.

 „Þetta er fyrsta sumarið sem þeir eru hérna við Lágafellsskóla og þeir eru svakalega árásargjarnir,“ segir Margrét sem hefur haft samband við bæjarskrifstofurnar vegna mávanna við takmarkaðar undirtektir. „Þeir fara væntanlega að fara úr því sem komið er en mér finnst að bærinn ætti að vera viðbúinn næsta vor.“

Svakalega árásargjarnir

Margrét Dögg varð nýlega fyrir mávaárás þegar hún var á kvöldgöngu og birti í kjölfarið símamyndbönd af fuglagerinu í umræðuvettvangi Mosfellinga á Facebook með þessum formála:

„Ég skal alveg viðurkenna að mér fannst mávaumræðan hérna vera hálfgert tuð... en almáttugur, það þarf eitthvað að gera! Ég fór í göngutúr með hundinn í kvöld og stóð bara ekki á sama, fuglarnir réðust að okkur báðum!

Auðvitað að verja ungana sína og allt það, en þetta bara er aðeins of mikið svona inni í bæ! Og hávaðinn! Og skíturinn um allar stéttir! Þetta er alveg nýtt hérna í hverfinu.“

„Þeir komu bara í hausinn á mér hvað eftir annað, þessi grey,“ segir Margrét við Fréttablaðið.

Eftir að Margrét Dögg birti myndböndin og frásögn sína á Facebook hafa fleiri komið fram með svipaðar sögur og ljóst að þolinmæði íbúana í hverfinu er á þrotum.

„Varð fyrir árás í Holtunum núna í vikunni, pabbi kom að stúlku í Þverholti sem var með veskið á hausnum á sér til að verjast þessum fljúgandi rottum.“

Óttaslegin skólabörn

„Vá hvað ég er sammála þér, ég var einmitt þarna áðan að labba með hundinn minn og ég flúði yfir götuna því mér stóð bara ekki á sama með þessar rottur fljúgandi yfir mér hahaha hafði nú samt mestar áhyggjur af því að þessi kvikindi myndu skíta á mig haha. En þetta er bara orðið þannig að bærinn verður að fara bregðast við þessu og það STRAX!“ segir einn sem leggur orð í belg og umræðan heldur áfram á svipuðum nótum.

„Lenti i þeim í kvöld var á gangi við Lágafellsskóla, mikill hávaði í þeim.“

„Þetta er hörmung. Það sem er líka sorglegt er að mávurinn hefur haft Lágafellsskóla í gíslingu í allt sumar enda með hreiður þarna uppi. Ungarnir sjást oft alveg við brúnina. Eru orðnir nokkuð stórir og maður verður að vona að þá fari þeir eða hvað?

En krakkar hafa sumir hverjir ekki þorað að leika sér á skólalóðinni í sumar vegna þessa. Sem er glatað. Að geta ekki notað skólalóðina fyrir útiveru... fyrir utan allt annað, ónæði, skít, hávaða og svo þarf maður stundum að forða sér á hlaupum... en væri hægt að fá bæjaryfirvöld til að vera með einhverjar aðgerðir næsta vor svo þeir setjist ekki hérna að ?? Nú er ég reyndar illa að mér í fuglafræðum. En það gengur amk ekki að þessi ránfugl verpi á þaki skólans og taki um leið alla skólalóðina í gíslingu.“

Árás á kött

„Ég sá þá gera árás á kött sem náði að flýja undir fellihýsi þeir vöktuðu hann ef hann reyndi að fara undan þetta var 2 tíma störukeppni,“ segir einn íbúanna og mávunum er meðal annars lýst með þessum orðum: „Ógeð!!!“, „þvílík plága“ og „þetta er óþolandi.“

„Bærinn þarf að bregðast við. Svona hefur hávaðinn verið kvöld eftir kvöld í Krikahverfi líka. Aldrei verið svona mikið áður.“