Landhelgisgæslan bauðst til að fljúga yfir gossvæðið í morgun til að ganga úr skugga um að enginn hafi orðið innlyksa eftir að hraun flæddi yfir hluta af gönguleiðinni að gosstöðvunum.

Lögreglan á Suðurnesjum hefur lokað aðgangi að svæðinu í samráði við Almannavarnir og eru björgunarsveitir nú að störfum að rýma svæðið og beina fólki til baka.

Hér fyrir neðan má sjá myndband úr þyrluferð Landhelgisgæslunnar þar sem má greinilega sjá breytingar í landslaginu eftir að þriðja hrauntungan fór að flæða úr Geldingadölum niður í Nátthaga. Þegar rennur hraun úr Meradölum niður í Nátthaga og lokar þannig af fyrir aðgang að stóra hryggnum milli Nátthaga og Geldingadala sem margir göngumenn hafa nýtt sér til að virða fyrir sér dýrðina.

Hraunið gæti farið að flæða í vesturátt og ofan í Nátthagakrika en þá myndi lokast á milli gönguleiðar A og B.