Ráðist þurfti í umfangsmiklar aðgerðir eftir að bíll af gerðinni Dodge Ram sökk ofan í um þriggja metra djúpan krapapytt. Bílnum hafði verið ekið á Sigölduleið nærri Hnausapolli á Fjallabaki og sat hann þar fastur þangað til í gær þegar hópur fólks fór á staðinn til þess að ná bilnum upp. Mbl.is greinir frá málinu en þar segir að hópurinn hafi hafist handa um miðnætti í gær.

Pytturinn sést ekki á yfirborðinu

„Það er ein­hver laut þarna í lands­lag­inu sem nær að stífl­ast á vet­urna og fyll­ist af vatni. Á sumr­in er þetta bara þurrt og smá poll­ur kannski. Menn eru svo bara að aka veg­inn eft­ir GPS-tæk­inu eða stikuðum vegi og vita ekki hvað er fram und­an,“ segir Magnús Kristjáns­son, einn af þeim sem fór á vett­vang til þess að ná bif­reiðinni upp úr pyttinum, við mbl.is.


Vefsíðan The Drive greinir sömuleiðis frá og birtir myndir af ótrúlegum aðgerðum hópsins en það var Hjalti Ólafsson sem deildi myndbandinu. Þar má sjá að minnsta kosti níu jeppa sem ekið var á staðinn til þess að koma bílnum upp úr pyttinum. Ekki náðist mynd­band af því þegar bíllinn komst upp á yfir­borðið en ljóst er að að­gerðin tók langan tíma en fór að lokum vel.

Í sam­tali við Frétta­blaðið segist Hjalti hafa verið einn af þeim sem var við­staddur þegar fyrst var reynt að hífa bílinn upp en það hafi mis­tekist. Því hafi þurft að fara aftur með betri græjur til þess að ná bílnum upp án þess að skemma hann of mikið. Um sex hundruð þúsund manns hafa nú horft á mynd­band Hjalta sem segir það hafa orðið „viral“ á skömmum tíma.

Vita ekkert fyrr en ísinn gefur sig

Magnús vakti at­hygli á málinu á sam­fé­lags­miðlum í morgun til þess að vara aðra við. Hann segir öku­mann bif­reiðarinnar hafa verið vel út­búin en að erfitt sé að varast slíka pytti enda sjáist þeir ekki fyrr en bif­reiðin er fallin ofan í.

„Menn eru bara að keyra á fínu harð­fenni þarna og vita síðan ekki fyrr en ís­inn gef­ur sig,“ segir hann og bendir á hjá­leið sem kallast Krapa­leiðin en hún liggur í fjalls­hlíðunum í kringum svæðið.

Verkefnið hófst að lokum.
Mynd/Hjalti Ólafsson