Myndband úr eftirlitsmyndavél sýnir manninn sem talið er að skotið hafi blaðamanninn Lyra McKee til bana í óeirðum í Londonderry á Norður-Írlandi í gærkvöldi. Lögreglan rannsakar morðið sem hryðjuverk.

McKee, sem var 29 ára gömul, var skotin í höfuðið þar sem hún stóð við lögreglubíl. Hún lést af sárum sínum á sjúkrahúsi.

Sky News greinir frá því að lögreglan hafi nú gefið út myndband af hettuklæddum byssumanninum, þar sem hann skríður fyrir horn. Hann hefst við í dimmu skoti skammt frá vettvangi og virðist á einum tímapunkti hleypa af skotum. Þegar hann hefur lokið sér af, kemur annar maður, sennilega samverkamaður, og tekur eitthvað upp úr jörðinni.

Í myndbandinu sést McKee standa skammt frá, ásamt hópi fólks, örfáum andartökum áður en hún er myrt.

Mark Hamilton, aðstoðarlögreglustjórinn á svæðinu, sagði við fjölmiðla eftir óeirðirnar að nýir írskir lýðveldissinnar hafi staðið fyrir árásinni. Hann segir að yfir 50 sprengjum hafi verið varpað á lögreglu. Óeirðir eru gjarnan á þessum tíma árs á Norður-Írlandi en þá minnast írskir lýðveldissinnar páskauppreisnarinnar 1916. Óeirðir brutust út í gærkvöldi þegar lögregla réðist inn á heimili í hverfinu til að gera húsleitir.