Samfélagsmiðlarnir Facebook, YouTube og Twitter hafa í dag átt í erfiðleikum með að halda aftur af útbreiðslu á myndbandi af hryðjuverki sem framið var á Nýja-Sjálandi í morgun. 49 voru myrtir í skotárásum í tveimur moskum en einn árásarmaðurinn birti um leið athæfi sínu í beinni útsendingu á Facebook.

Myndbandið er að sögn CNN 17 mínútur að lengd. Á því sést að sögn þegar maðurinn gengur inn í moskuna og hefur skothríðina. Haft er eftir Miu Garlick, stjórnanda Facebook í Ástralíu og Nýja-Sjálandi að aðgangi mannsins sem birti myndbandið hafi verið eytt stuttu eftir ódæðið. Það sama hafi verið gert við Instagram-síðu mannsins.

Afrit af hryðjuverkunum hafa hins vegar gengið manna á milli á samfélagsmiðlum; ýmist á Facebook, YouTube og Twitter. CNN segir að með því vakni spurningar um getu miðlanna til að halda skaðlegu efni í skefjum.

Lögreglan á Nýja-Sjálandi hefur beðið notendur samfélagsmiðla að deila ekki myndbandinu. Unnið sé að því að taka myndbandið úr birtingu. Með dreifingunni sé fólk að vinna að framgangi hryðjuverkamannanna.