Myndband af átökum í Borgarholtsskóla í dag eru nú í dreifingu á samfélagsmiðlum. Varað er við meðfylgjandi myndskeiði en þar má sjá úlpuklæddan mann berja annan ítrekað með hafnaboltakylfu.
Líkt og fram hefur komið tjáði nemandi við skólann Fréttablaðinu frá því í dag að fát hefði komið á kennara sem skorist höfðu í leikinn þegar hnífur var dreginn upp. „Hnífur, hnífur!“ má heyra kennara kalla.
Lögreglunni barst tilkynning um átökin um klukkan 13:00 í dag. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er enginn alvarlega slasaður eftir árásina. Ekki er ljóst að svo stöddu af hvaða tilefni maðurinn mundaði hafnaboltakylfuna.