Eldvarnaátak slökkviliðsmanna um allt land hófst í gær en ný könnun Gallup sýnir að allt of mörg heimili er berskjölduð fyrir eldvsoðum. Þetta á til dæmis við um mörg heimili í höfuðborginni, heimili unga fólksins og íbúðir í leiguhúsnæði.

Hermann Sigurðsson, framkvæmdastjóri Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna segir brýnna en nokkru sinni að hvetja fólk til að efla eldvarnir heimilisins, ekki síst í ljósi þess að það sem af er ári hafa fleiri látist í eldsvoðum hér á landi en dæmi eru um í áratugi, langt umfram það sem gerist í meðalári.

„Veirufaraldurinn gerir okkur vissulega erfitt fyrir að þessu sinni en við teljum að fræðsla um eldvarnir eigi erindi við almenning sem aldrei fyrr,“ segir Hermann.

Í tilefni af eldvarnarátakinu fengu Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir, Alma Möller landlæknir og Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn, að slökkva elda í Hafnarfirði í gær. Víðir Reynisson var meiddur í baki og var því fjarverandi.

Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Slökkviliðin beina fræðslu um eldvarnir að nemendum í 3. bekk grunnskóla og fjölskyldum þeirra. Lögð er áhersla á að heimili séu búin eldvarnabúnaði á borð við reykskynjara, slökkvitæki og eldvarnateppi:

  • Best er að hafa reykskynjara í öllum rýmum.
  • Slökkvitæki á að vera við helstu flóttaleið.
  • Eldvarnateppi á að vera á sýnilegum stað í eldhúsi.
  • Tryggja þarf öllum á heimilinu að minnsta kosti tvær flóttaleiðir.
  • Allir þekki neyðarnúmerið, 112, líka börnin.

Vanalega fer Eldvarnaátakið þannig fram að slökkviliðsmenn heimsækja skóla um land allt og ræða við börnin í 3. bekk um eldvarnir en vegna veirufaraldursins munu skólarnir í mörgum tilvikum sjá sjálfir um fræðsluna að þessu sinni.

Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Könnun Gallup sýnir að eldvarnir á heimilum í Reykjavík eru mun lakari en á heimilum á landsbyggðinni. Fleiri hópar þurfa að huga betur að eldvörnum heimilisins:

  • Fólk á aldrinum 25-34 ára er mun ólíklegra en aðrir til að hafa eldvarnateppi og slökkvitæki á heimilinu. Eldvarnateppi eru að meðaltali á 64,3 prósent heimila en aðeins hjá 48 prósent í umræddum aldurshópi.
  • Könnunin leiðir í ljós að eldvarnir í fjölbýlishúsum eru lakari en almennt gerist og þá sérstaklega í stærri fjölbýlishúsum.
  • Íbúar í leiguhúsnæði eru sem fyrr mun verr búnir undir eldsvoða en aðrir. Könnun Gallup leiðir í ljós að í 45 prósent íbúða í leiguhúsnæði er enginn eða aðeins einn reykskynjari. Sambærilegt hlutfall á landsvísu er 28 prósent.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Gjörningur þríeykisins er viðeigandi þar sem þau hafa í gegnum árið verið að slökkva táknræna elda í kórónaveirufaraldrinum.

Fréttablaðið/Sigtryggur Ari