„Við sjáum að sjálf­sögðu á eftir Blátindi en eigum eftir að meta hvað við gerum núna,“ segir Íris Róberts­dóttir, bæjar­stjóri í Vest­manna­eyjum í sam­tali við Frétta­blaðið. Gamli vél­báturinn Blátindur VE21 sökk við bryggjuna í Vestmannaeyjahöfn í ó­veðrinu í dag.

Báturinn var í eigu bæjar­fé­lagsins og talinn mikil menningar­verð­mæti fyrir hann. Hann var til sýnis á Skans­svæðinu þar sem búið var að byggja undir hann við bryggjuna svo hann var ekki alveg á floti. „Svo kemur há­flóð hér klukkan hálf tíu og þá fer hann á flot og af stað og yfir alla höfnina. Honum var svo komið að bryggjunni hjá hinum skipunum,“ segir Íris.


Hafnar­starfs­menn fóru þannig á eftir bátnum til að koma honum að bryggjunni en skömmu síðar sökk hann. Óskar Pétur Frið­riks­son, sem kom að því að gera bátinn upp fyrir tuttugu árum áður en Vestmannaeyjabær eignaðist hann, náði ó­trú­legum myndum fyrir Frétta­blaðið af Blátindi að sökkva.

Hafnarstarfsmenn koma Blátindi aftur að bryggju.
Mynd/Óskar Pétur Friðriksson

Að­spurð segir Íris að engin á­kvörðun hafi verið tekin um fram­haldið, hvort eða hve­nær Blátindur verði hífður upp og gert við hann. „Nú er aðal­at­riðið að sinna þeim verk­efnum sem eru að berast inn í ó­veðrinu og að tryggja að Blátindur hreyfist ekkert núna og valdi tjóni. Svo þarf að meta á­standið í fram­haldinu.“

Sá síðasti sinnar kynslóðar


Blátindur á sér langa og merki­lega sögu en hann smíðaði skipa­smíða­meistarinn Gunnar Marel Jóns­son í Vest­manna­eyjum árið 1947. Smíði hans var hluti af rað­smíði fiski­skipa fyrir til­stilli ríkis­stjórnarinnar þegar átti að endur­nýja skipa­flota Ís­lendinga eftir stríð.

Báturinn sökk skömmu eftir að honum hafði verið komið aftur að bryggjunni.
Mynd/Óskar Pétur Friðriksson

Báturinn var gerður út í Eyjum til ársins 1958 þegar hann var seldur burt og gerður út frá ýmsum ver­stöðvum vestan og norðan lands. Blátindur var einnig notaður sem varð­skip í Faxa­flóa sumrin 1950 og 1951 en þá var hann búinn fall­byssu.


Hann var síðasti báturinn sem eftir var af þeim flota sem smíðaður var í Vest­manna­eyjum úr eik og furu á árunum 1907 til 2000. Árið 1993 var Blátindur dreginn til Eyja af Land­helgis­gæslunni eftir bar­áttu fyrir því að fá hann aftur til sinna heimkynna.


Þar var hann settur í slipp og ekkert hugsað um hann fyrr en á­huga­manna­fé­lag um varð­veislu Blátinds tók sig til um alda­mót og lét gera hann upp. Hann var svo af­hentur menningar­mála­nefnd Vest­manna­eyja til varð­veislu á sjó­manna­daginn árið 2001 og hefur hann verið til sýnis við Skanssvæðið síðan.

Blátindur á sér langa og merkilega sögu.
Mynd/Óskar Pétur Friðriksson
Blátindur var síðasti báturinn sem eftir var af þeim flota sem smíðaður var í Vest­manna­eyjum úr eik og furu á árunum 1907 til 2000.
Mynd/Óskar Pétur Friðriksson
Bæjarstjóri í Vestmannaeyjum segir ótímabært að ræða hvað gert verði við Blátind. Það verði metið þegar óveðrið í Eyjum er gengið yfir.