„Þetta er alveg ó­trú­legur sóða­skapur,“ segir Hjálm­týr Heið­dal kvik­mynda­gerðar­maður í sam­tali við Frétta­blaðið. Hjálm­týr fékk sér göngu­túr í dag sem væri vart í frá­sögur færandi nema fyrir þann sóða­skap sem varð á vegi hans.

Eins og sjá má á myndinni sem fylgir hér að neðan mátti víða sjá ein­nota and­lits­grímur. Alls myndaði Hjálm­týr þrettán slíkar grímur á klukku­tíma­gangi um Þing­holtin. „Ég hefði ef­laust getað myndað hundrað ef ég hefði nennt að ganga að­eins meira.“

Hjálm­týr er bú­settur á Grettis­götunni og gengur í um það bil klukku­tíma á degi hverjum á­samt eigin­konu sinni. „Við hjónin höfum verið að taka eftir þessu að undan­förnu þannig að ég á­kvað að taka símann með í dag. Þetta er leiðin­leg við­bót við draslið sem er fyrir,“ segir hann og bætir við að mestur hafi sóða­skapurinn verið í kringum verslun Krónunnar við Hall­veigar­stíg.

Eftir að grímu­skyldu var komið á hér á landi vegna kórónu­veirufar­aldursins hefur grímu­notkun aukist mjög. Nú þarf til dæmis að bera and­lits­grímur í verslunum. Ein­hverra hluta vegna kjósa sumir að henda grímunum frá sér á víða­vangi í stað þess að setja þær í ruslið.

Auður Anna Magnús­dóttir, fram­kvæmda­stjóri Land­verndar, sagði í sam­tali við Morgun­blaðið í októ­ber að hún hefði á­hyggjur af lang­varandi um­hverfis­á­hrifum, meðal annars vegna and­lits­gríma sem finna má á víða­vangi.

„Við skiljum auð­vitað þörfina fyrir grímur og hanska en það er mjög mikil­vægt að fólk losi sig við þessa hluti á réttan hátt þegar búið er að nota þá,“ sagði hún.

Mynd/Hjálmtýr Heiðdal