„Þetta er alveg ótrúlegur sóðaskapur,“ segir Hjálmtýr Heiðdal kvikmyndagerðarmaður í samtali við Fréttablaðið. Hjálmtýr fékk sér göngutúr í dag sem væri vart í frásögur færandi nema fyrir þann sóðaskap sem varð á vegi hans.
Eins og sjá má á myndinni sem fylgir hér að neðan mátti víða sjá einnota andlitsgrímur. Alls myndaði Hjálmtýr þrettán slíkar grímur á klukkutímagangi um Þingholtin. „Ég hefði eflaust getað myndað hundrað ef ég hefði nennt að ganga aðeins meira.“
Hjálmtýr er búsettur á Grettisgötunni og gengur í um það bil klukkutíma á degi hverjum ásamt eiginkonu sinni. „Við hjónin höfum verið að taka eftir þessu að undanförnu þannig að ég ákvað að taka símann með í dag. Þetta er leiðinleg viðbót við draslið sem er fyrir,“ segir hann og bætir við að mestur hafi sóðaskapurinn verið í kringum verslun Krónunnar við Hallveigarstíg.
Eftir að grímuskyldu var komið á hér á landi vegna kórónuveirufaraldursins hefur grímunotkun aukist mjög. Nú þarf til dæmis að bera andlitsgrímur í verslunum. Einhverra hluta vegna kjósa sumir að henda grímunum frá sér á víðavangi í stað þess að setja þær í ruslið.
Auður Anna Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, sagði í samtali við Morgunblaðið í október að hún hefði áhyggjur af langvarandi umhverfisáhrifum, meðal annars vegna andlitsgríma sem finna má á víðavangi.
„Við skiljum auðvitað þörfina fyrir grímur og hanska en það er mjög mikilvægt að fólk losi sig við þessa hluti á réttan hátt þegar búið er að nota þá,“ sagði hún.
