Unnið verður að við­gerðum á hús­næði Korpu­skóla um páskana en skoðun á hús­næðinu leiddi í ljós ýmsar skemmdir sem nauð­syn­legt er að bregðast við til að tryggja heil­næmi skóla­hús­næðisins.

Út­tekt verk­fræði­stofunnar EFLU leiddi, meðal annars, í ljós að í sjö sýnum úr byggingar­efnum hafa mælst myglu­vextir. Enn er beðið eftir niður­stöðu úr greiningu á sex sýnum. Í 11 sýnum var engin mygla.

EFLA verk­fræði­stofa annast eftir­lit með fram­kvæmdunum og hefur skilað til um­hverfis- og skipu­lags­sviðs Reykja­víkur­borgar lista yfir staði í hús­næðinu sem leggja þarf sér­staka á­herslu á í við­gerðunum. Hér er um að ræða skemmdir á gólf­dúk og í veggjum; bæði múr- og gifs­veggjum, og raka­skemmda vaska­skápa. Um­merki um raka fundust í loftum auk þess sem EFLA gerir at­huga­semdir við frá­gang á gluggum, hurðum og í kringum niður­föll.

Ná ekki að klára allt áður en skólahald byrjar aftur

Í til­kynningu frá Reykja­víkur­borg kemur fram að sam­ráð hafi verið haft við starfs­fólk og for­eldra nem­enda í Foss­vogs­skóla vegna fram­kvæmdanna en alla starf­semi Foss­vogs­skóla átti að flytja í Korpu­skóla á meðan hús­næði Foss­vogs­skóla er aftur tekið út vegna mögu­legrar myglu.

Í til­kynningunni kemur fram að það náist lík­lega ekki að klára allt sem þarf að klára áður en skóla­starf hefst á ný eftir páska en að lögð verði á­hersla á að klára að laga það sem þarf að laga í þeim rýmum sem nem­endur og starfs­fólk dvelja í.

Klára viðgerð næsta sumar

Vinna iðnaðar­manna fer fram í sótt­varnar­hólfum í Korpu­skóla og verður eftir páska farið í við­gerðir á því sem að EFLA telur hægt að vinna að á meðan starf­semi er í hús­næðinu. Svo næsta sumar verður farið í við­gerðir á því sem að ekki er hægt að laga á meðan skóla­starf er í hús­næðinu.

Í til­kynningu Reykja­víkur­borgar segir að síðustu ár hafi skapast mikil reynsla og þekking um hvernig sé best að takast á við raka­skemmdir sam­hliða því að þekking um raka í húsum hafi farið vaxandi. Þar er greint frá því að þann 11. Mars var á fundi borgar­ráðs sam­þykkt að koma upp megin­verk­ferli innan borgarinnar þegar grunur vaknar um hugsan­legar raka­skemmdir eða lé­leg loft­gæði í hús­næði sem hýsir starf­semi borgarinnar.

Næsta þriðju­dag tekur Heil­brigðis­eftir­lit Reykja­víkur út hús­næði Korpu­skóla. Full­trúar EFLU verða á staðnum þegar út­tektin fer fram. Eftir það verða haldnir upp­lýsinga­fundir annars vegar með starfs­fólki Foss­vogs­skóla og hins vegar með for­eldrum nem­enda.