Bæði Flataskóli og Hofstaðaskóli voru tifandi tímasprengjur að mati Garðabæjarlistans en mygla hefur fundist í báðum skólum. Á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar í vikunni var hart tekist á um skólahúsnæði í bænum. Þorbjörg Þorvaldsdóttir, oddviti Garðabæjarlistans, benti á í bókun sinni að fram komi í ársskýrslu Flataskóla frá 2020-2021 að starfsfólk komi með margar ábendingar varðandi viðhald og ásigkomulag húsnæðis. „Vitað er að kallað var eftir úttekt á skólanum árið 2019 og að skýrsla um umfangsmikinn leka, rakaskemmdir og myglu kom fram þá,“ segir meðal annars í bókun hennar.

Þá bendir hún á að í ársskýrslum Hofsstaðaskóla sé talað um aðkallandi viðhaldsþörf meðal annars vegna leka á hverju ári frá árinu 2010. „Er sérstaklega talað um viðhaldsþörf ytra byrðis og það ítrekað í ársskýrslu 2015-16, aftur árið 2016-17, 2017-18, 2018-19 og 2019-20,“ bendir Þorbjörg á og endar bókunina: „Það hefði mátt vera ljóst í hvað stefndi, og ég stend við orð mín sem voru tekin sérstaklega fyrir hér um daginn og endurtek að báðir þessir skólar voru tifandi tímasprengja.“