Farið verður í áframhaldandi framkvæmdir við Fossvogsskóla vegna myglueinkenna sem hafa valdið veikindum hjá nemendum og starfsfólki og í kjölfarið tekin fleiri sýni úr skólanum.

Á fjölmennum fundi sem hófst seinni partinn í dag og lauk um kvöldmatarleytið var kynnt skýrsla frá verkfræðistofunni Verkís vegna sýna sem tekin voru í skólanum í desember síðastliðnum. Þau sýndu að enn í gró að finna í skólanum sem veldur myglu af völdum sveppamengunar en Náttúrufræðistofnun Íslands, NÍ tók að sér greiningu á sýnunum.

Sáttahugur eftir tveggja ára baráttu

Umræður sköpuðust á fundinum um vandann sem hefur verið viðvarandi síðan í byrjun árs 2019 og valdið átökum á milli foreldra sem eiga börn sem veiktust, foreldrafélagsins og borgaryfirvalda. Svo virðist sem sáttahugur sé í loftinu eftir tveggja ára erfiðleika í samskiptum á milli aðila.

„Fundurinn var upplýsandi og uppbyggjandi og mér sýndist þar að allir séu að gera sitt besta og með hag nemendana að leiðarljósi, það er verið að leggja mikla vinnu í að finna áfram upptök vandans og ekki síst vinna í því að hafa samskipti góð á milli foreldra, borgaryfirvalda og skólastjórnenda,“ segir Ragnheiður Davíðsdóttir, formaður SAMFOK og áheyrnarfulltrúi foreldra barnar í Skóla og frístundasvið en Ragnheiður var meðal þeirra sem sat fundinn.

Reykjavíkurborg hefur hingað til lagt til rúmlega 500 milljónir króna vegna rakaskemmda og þær framkvæmdir sem farið verður í snúa meðal annars að loftræstikerfi skólans og eiga að taka um hálfan mánuð.

Skýrsla Verkís í heild er viðamikil og hefur enn ekki verið gerð opinber. Fundarmenn fengu ekki skýrsluna fyrir fund og hafa ekki fengið hana afhenta. Hún mun verða birt á vef borgarinnar innan skamms.

Ásamt foreldraráði sátu fundinn m.a. fulltrúar Reykjavíkurborgar frá Umhverfis- og skipulagssviði og Skóla -og frístundasviði, formaður foreldrafélagisins, formaður Félags grunnskólakennara, formaður SAMFOK og sérfræðingur í mygluskemmdum í húsnæði frá verkfræðistofunni EFLU.