Kennsla áttundu bekkinga í Hagaskóla var felld niður í dag eftir að mygla greindist í múr þar sem stofur þeirra eru staðsettar.

Í tilkynningu sem send var til foreldra í gær, segir að búið sé að virkja alla ferla og vinna við undirbúning framkvæmda hefjist strax í dag.

Greint var frá því árið 2019 að nokkur fjöldi starfsmanna og nemenda skólans hafi sýnt einkenni sem bentu til þess að húsnæðið væri heilsuspillandi. Þá höfðu engin sýni verið tekin í tengslum við myglu.

Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg hafa nú þegar farið fram miklar framkvæmdir á húsnæði skólans. Ekki sé ljóst hvort málin tengist.

Farið hafi verið í rannsókn á innivist skólans eftir að starfsmenn skólans kvörtuðu undan einkennum. Sýni hafi verið tekin á nokkrum stöðum eftir fund með kennurum í lok október, enn eigi eftir að greina hluta þeirra.