Sænska bílatímaritið Teknikens Värld tók nokkra rafbíla í hið alræmda elgspróf á dögunum, en þar þurfa bílarnir að sveigja fram hjá keiluhindrun á 68-75 km hraða. Er þar verið að líkja eftir hugsanlegum aðstæðum er komið geta upp ef sveigja þarf skyndilega frá hættu. Þurfa bílarnir að komast í gegnum hindrunina á 72 km hraða til að standast raunina.

Þótti hinn nýi Ford Mustang Mach-E koma sérlega illa út úr prófinu en hann missti afturendann út úr beygjunni á 68 km hraða sem þýðir að hann hafi fallið á prófinu. Tveir aðrir bílar voru prófaðir á sama tíma og stóðu sig mun betur, en það voru Tesla Model Y og Hyundai Ionic 5.

Náðu þeir að komast gegnum hindrunina á allt að 75 km hraða.

Mach-E er ekki eini rafbíllinn sem hefur staðið sig illa á elgsprófinu, en rafbílar eins og Renault Zoe og Jagúar I-Pace hafa einnig fallið á prófinu.

Að sögn bílstjórans í prófi Teknikens Värld, Linus Pröjtz, er afturenda bílsins um að kenna, en tölvubúnaður bílsins grípur of seint inn í með þessum afleiðingum. „Afturendi bílsins er mjög ótryggur en Tesla Model Y stóð sig mun betur. Mustang Mach-E fer ekki hraðar en 68 km í prófinu á meðan Tesla Model Y fer vel í gegn á 75 km hraða, sem er allt önnur hegðun. Önnur góð, hin vond,“ hafði Linus Pröjtz um málið að segja.