Þegar loks kom í ljós að Joe Biden hefði sigrað Arizona fylki í forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 2020, sagði fjölmiðlamógúllinn Rupert Murdoch: „Tölurnar eru óhagganlegar, þetta verður ekki nálægt því,“ við Jared Kushner, tengdason og ráðgjafa Donald Trump. The Guardian greinir frá þessu.
Kushner greinir frá því að hann hafi hringt í Murdoch og spurt hann hvers vegna Fox News hefði spáð sigri Biden í Arizona, jafnvel áður en hundruð þúsunda atkvæða hefðu verið talin.
Murdoch sagðist ætla að kynna sér málið, sem hann gerði áður en hann hringdi til baka nokkrum mínútum síðar. „Því miður Jared, það er ekkert sem ég get gert,“ sagði hann og bætti við að gagnastjórar Fox News sögðu að Trump ætti lítinn séns á að sigra Arizona.
Það var einmitt sjónvarpsstöð í eigu Rupert Murdoch, Fox News, sem tilkynnti fyrst að Biden hefði sigrað, en sjónvarpstöðin hefur í gegnum tíðina verið hliðholl Repúblikönum og því kom það mörgum á óvart að Fox News hefði verið fyrsta stöðin til að tilkynna það.
Allt þetta kemur fram í nýrri bók Jared Kushner, Breaking History, sem kemur út í ágúst. Margir dyggustu stuðningsmanna Trump hafa snúist gegn honum á síðustu vikum vegna niðurstöðu nefndarinnar sem rannsakar árásina á þinghúsið 6. janúar 2021. Jafnvel Fox News virðist hafa snúist gegn honum.
Frásögn Kushner bætist við margar sem virðast hafa verið að koma út á síðustu vikum. En margar frásagnir hafa komið fram þar sem Trump er lýst svoleiðis að hann hafi ekki viljað lýsa yfir ósigri, jafnvel þegar það var orðið ljóst að hann hefði tapað.

„Sláandi spáin stöðvaði meðbyr okkar skyndilega,“ segir Kushner í bókinni. „Stemningin breyttist strax á meðal leiðtoga herferðarinnar, sem voru flestir að reyna að skilja aðferðarfræði stöðvarinnar [Fox News].“
Ósigur Trump í Arizona minnkaði sigurlíkur Trump gríðarlega en hann þurfti þá að treysta á sigur í fylkjum sem ólíkleg eru til þess að kjósa Repúblikana til þess að fá 306 kjörmenn og þar með sigra kosninguna, sem síðar gerðist ekki.
Biden endaði á að sigra Arizona með tíu þúsund atkvæðum.