Geir Gestsson, verjandi Murat Selivrda sem var sýknaður í Rauðagerðismálinu í morgun, segir niðurstöðuna rétta og í samræmi við væntingar en skjólstæðingur hans muni krefja ríkið um bætur.

„Við erum sátt og þetta er rétt niðurstaða. Gögnin sýndu ekki fram á sekt hans,“ sagði hann í samtali við Fréttablaðið eftir að dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Angjelin Mark Sterkaj var dæmdur í sextán ára fangelsi fyrir morðið á Armando Beqirai

Angjelin játaði verknaðinn nokkru eftir morðið og hefur ávallt haldið því fram að hann hafi verið einn að verki. Armando var albanskur að uppruna, 33 ára gamall. Hann var skotinn til bana fyrir utan heimili sitt í Rauða­gerði þann 13. febrúar síðast­liðinn.

Claudia Sofia Coel­ho Car­va­hlo, sambýliskona Angjelin, Murat Selivrda og Sheptim Qerimi voru öll sýknuð.

Aðspurð um framhaldið segir verjandinn að Murat muni krefjast bóta frá ríkinu en hann hefur sætt þvingunarráðstöfun vegna málsins.

Geir nefnir sérstaklega skýrslu lögreglu sem innihélt meðal annars kenningar lögreglu um samverknað þeirra þriggja án stoðar í öðrum gögnum málsins. Þar hafi hlutur skjólstæðings síns verið ýktur stórkostlega að tilefnislausu.

Þið getið bókað það að það verði eftirmálar,“ sagði Geir.

Murat fyrir utan dómsalinn í morgun.
Fréttablaðið / Anton Brink